Erilsöm nótt hjá lögreglunni í borginni

Þrír gistu fangageymslu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í nótt, þar af einn að eigin ósk. Nokkuð var um ölvunar- og fíkniefnaakstur í borginni, og þá var tilkynnt um innbrot í heimahús og bifreið.

Á svæði lögreglunnar í Austurbæ, Miðbæ, Vesturbæ og á Seltjarnarnesi var ökumaður stöðvaður um kl. 5.45 í nótt vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna. Í ljós kom að hann var einnig réttindalaus. Manninum var sleppt að lokinni blóðsýnatöku.

Um kl. 8.26 tilkynnti maður að hjóli hans hefði verið stolið en um var að ræða rautt og svart CUBE-hjól. Þá var tilkynnt um þjófnað á bakpoka kl. 11.11 í morgun.

Á svæði lögreglunnar í Hafnarfirði, Garðabæ og á Álftanesi var maður handtekinn kl. 00.47 í nótt vegna gruns um fíkniefnamisferli. Var hann látinn laus að lokinni skýrslutöku. Um kl. 5.28 var ökumaður stöðvaður vegna gruns um ölvunarakstur og hann látinn laus að lokinni blóðsýnatöku.

Þá var ökumaður stöðvaður kl. 7.37 vegna gruns um ölvunarakstur og reyndist hann einnig réttindalaus. Hann fór sinnar leiðar að lokinni sýnatöku. Klukkustund síðar, eða kl. 8.27, var enn einn ökumaðurinn stöðvaður, í þetta sinn vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna, en bifreið hans reyndist einnig ótryggð.

Á svæði lögreglunnar í Kópavogi og Breiðholti var ökumaður stöðvaður kl. 2.30 fyrir of hraðan akstur. Ók hann á 117 km/klst þar sem löglegur hámarkshraði er 80 km/klst. Hann reyndist réttindalaus.

Kl. 9 í morgun var svo tilkynnt innbrot í bifreið en ekki er ljóst hvort og þá hverju var stolið. Kl. 10.55 var tilkynnt innbrot í heimahús en ekki er ljóst hverju var stolið. Málið er í rannsókn.

Á svæði lögreglunnar í Grafarvogi, Mosfellsbæ og Árbæ var kona handtekin kl. 00.30 í nótt vegna gruns um fíkniefnamisferli. Hún var látin laus að lokinni skýrslutöku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert