Fínt síðsumarsveður

Hægur vindur verður á morgun og hiti á bilinu 10-15 stig, en búast má þó við skúraveðri seinnipartinn á Suður- og Vesturlandi. „Þetta er bara mjög fínt síðsumarsveður,“ segir Þorsteinn V. Jónsson veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.

Hann segir fyrstu skúrirnar stinga sér niður í kringum Eyjafjöll og í Mýrdalnum, en þær færi sig síðan suðvestureftir. „Þetta er ekkert rigningaveður. Það ætti að þorna á milli, en strax á mánudagsmorgun gæti orðið heldur meira um dembur.“

Þorsteinn segir skúrirnar aðallega verða við fjöllin til að byrja með. Þær færist svo í aukana í uppsveitunum, en minna verði um skúrir við ströndina. Þannig geti vel verið að gestir þjóðhátíðar verði lítið varir við skúrir á morgun og þá verði sömuleiðis lítil ef nokkur úrkoma á gesti mýrarboltans á Ísafirði.  

Hiti verður víða á bilinu 10-15 stig, en þó geti hann farið upp í 18 stig á innsveitum í Borgarfirði og í uppsveitum sunnanlands. Þá verði hafgola á morgun sunnanlands en hæg norðanátt fyrir norðan og vestan.

„Á mánudaginn má síðan búast við vætu víða á landinu, sérstaklega sunnan- og vestanlands. Það er kannski einna síst að hennar verði vart á norðaustanverðu landinu,“ segir Þorsteinn.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert