„Líf mömmu var lottóvinningur, ég bónusverðlaunin“

Mynd/samsett

Þegar María Rist Jónsdóttir kom í heiminn, þremur mánuðum fyrir tímann, vó hún ekki nema þrjár merkur. Hún lá á vökudeild Barnaspítala Hringsins fyrstu mánuði lífs síns en tvísýnt var um bæði líf Maríu og móður hennar. Í dag er María Rist 23 ára gömul og ætlar að hlaupa 21 kílómetra í Reykjavíkurmaraþoninu. María ræddi sögu sína í samtali við mbl.is.

„Líf mömmu var lottóvinningur, ég var bónusverðlaunin“

Á meðgöngu fékk móðir Maríu meðgöngueitrun og var María því tekin með keisaraskurði, þremur mánuðum fyrir settan tíma. Mæðgurnar þurftu að dvelja á vökudeild í marga mánuði að lokinni fæðingu en líf þeirra beggja var í hættu.

María Rist fæddist þrjá mánuði fyrir tímann og var þrjár …
María Rist fæddist þrjá mánuði fyrir tímann og var þrjár merkur. Ljósmynd/af heimasíðu Hlaupastyrksd

Að sögn Maríu lýsti læknir á sínum tíma ástandi mæðgnanna með þeim hætti að „lífslíkurnar hjá mömmu minni, það var eins og hún myndi vinna lottóið að lifa og ég væri bónusvinningurinn ef ég myndi lifa“.

María fæðist í febrúar en í október árinu áður kom fram lyf sem hjálpar lungunum að þroskast. „Það eiginlega gerði það að verkum að þetta gekk upp,“ segir María og á hún þá við lífið sjálft. Hún er læknum, hjúkrunarfræðingum og öðru starfsfólki vökudeildarinnar mjög þakklát og á þeim að eigin sögn líf sitt að launa.

Vegna veikinda sinna sem barn og unglingur er Maríu umhugað um börn sem glíma við veikindi. „Ég bara vildi leggja mitt af mörkum þarna til baka,“ segir María, en hún hleypur til styrktar gjafasjóði vökudeildar Barnaspítala Hringsins. Gjafasjóðurinn styður við börn sem dvelja á vökudeild og fjölskyldur þeirra með því að bæta aðbúnað á deildinni.

Hreyfingin hjálpar

Mæðgurnar komust báðar lífs af en María hefur þó frá unga aldri glímt við veikindi sem rekja má til þess að hún var mikill fyrirburi og ónæmiskerfi hennar því veikt. Þegar María var 11 ára gömul fékk hún sjaldgæfan sjúkdóm og í kjölfar hans glímir hún við taugasjúkdóm, bráðaofnæmi og vefjagigt.

„Þetta háir mér náttúrlega alveg í dag. Ég reyni að horfa á að vera mjög þakklát fyrir þá daga sem ég fæ góða, og þá sem ég get hreyft mig,“ segir María. Hún hefur alla tíð lagt stund á einhverja líkamsrækt eftir því sem heilsa leyfir hverju sinni. Á yngri árum æfði hún fótbolta en hún telur það ekki fara milli mála að hreyfingin hafi haft jákvæð áhrif í baráttu sinni við veikindin.

Persónulegur sigur

María hefur tekið þátt í Reykjavíkurmaraþoninu einu sinni áður en þá hljóp hún 10 kílómetra fyrir langveik börn. Hún hefur tekið þátt í fleiri hlaupum en þetta verður í fyrsta skipti sem hún hleypur 21 km í skipulögðu hlaupi. Það hefur hún einungis gert einu sinni áður á æfingu.

„Raunverulega er þetta líka bara sigur fyrir mig persónulega,“ segir María, en auk þess að safna styrkjum fyrir gjafasjóðinn, þótt hún vildi gjarnan ná góðum tíma, er það hennar helsta markmið að ljúka hlaupinu. Það koma dagar og vikur þar sem María getur ekki hreyft sig en hún vonast til að svo verði ekki þegar að hlaupinu kemur.

Það voru Maríu vonbrigði að geta ekki tekið þátt í hlaupinu í fyrra þegar hún glímdi við meiðsli, en í ár hefur hún ekki æft af jafnmikilli hörku og þá. Hún kveðst þó ágætlega upplögð fyrir hlaupið, hefur tekið ágæta hvíld og vonast til að geta klárað á ágætum hraða.

María var á vökudeild fyrstu mánuði lífsins.
María var á vökudeild fyrstu mánuði lífsins. Ljósmynd/af heimasíðu Hlaupastyrksd

Þakklát fyrir það sem hún fær

María hefur ekki látið veikindi sín standa í vegi fyrir sér í lífinu þótt þau hafi tekið sinn toll. Hún leggur stund á nám í arkitektúr við Listaháskóla Íslands þar sem hún hefur þriðja námsár í haust en hún hefur þurft að taka sér veikindaleyfi á ferlinum.

Hún segist gera sér fyllilega grein fyrir því að ekki hafi allir verið jafn heppnir og hún og þess vegna vilji hún leggja sitt af mörkum. „Foreldrar mínir kynntust fólki sem missti sitt barn á sama tíma og það er bara alveg hrikalega sorglegt. Þess vegna verður maður bara að horfa á það að maður er ofsalega þakklátur fyrir það sem maður fær.

Ég er ofsalega þakklát yfir höfuð fyrir þá heilsu og þá getu sem að ég hef haft í lífinu,“ segir María, „maður verður bara að taka því eins og það er; að stundum er maður ekki með heilsu og stundum er maður með heilsu.“

Reykja­vík­ur­m­araþon Íslands­banka fer fram 20. ág­úst næst­kom­andi. Hægt er að heita á Maríu Rist í gegn­um heimasíðu Hlaupa­styrks.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert