Yfirheyrslu lokið og mennirnir látnir lausir

Magn þeirra efna sem mennirnir höfðu í fórum sínum var …
Magn þeirra efna sem mennirnir höfðu í fórum sínum var meira en samanlagt magn úr öllum 70 fíkniefnamálunum sem upp komu á þjóðhátíð í fyrra. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég er fyrst og fremst ánægður að hafa náð þessu, að þetta skyldi ekki fara í umferð,“ segir Jóhannes Ólafsson, yfirlögregluþjónn í Vestmannaeyjum, en í gær kom upp stærsta fíkniefnamál í sögu Þjóðhátíðar í Vestmannaeyjum.

Frétt mbl.is: Stærsta fíkniefnamál í sögu Þjóðhátíðar

Mennirnir tveir sem höfðu efnin í fórum sínum gistu fangageymslur í nótt og sættu yfirheyrslu í dag en hafa nú verið látnir lausir. Málið fer næst í eðlilegan farveg hjá dómstólum.

Meira en samanlagt magn í fyrra

Brotið er sem fyrr segir það stærsta sem komið hefur upp á Þjóðhátíð til þessa. Til samanburðar var magn þeirra efna, sem mennirnir höfðu í fórum sínum, meira en samanlagt magn úr öllum 70 fíkniefnamálunum sem upp komu á hátíðinni í fyrra.

Áður hafði lögregla mest lagt hald á 20-50 grömm af fíkniefnum í einu máli en í þessu máli er um að ræða hundrað grömm af am­feta­míni, hundrað grömm af kókaíni og 180 e-töfl­ur.

Jóhannes segir erfitt að segja til um hvort einhver hluti efnanna hafi þegar verið kominn í umferð en vonast til að svo sé ekki. Því sé mikilvægt að upp hafi komist um málið áður en lengra var liðið á hátíðina. Þar sé öflugu eftirliti að þakka en sex lögreglumenn og fjórir hundar sinna fíkniefnagæslu á hátíðinni. 

Enn sem komið er hafa komið upp 12 fíkniefnamál á hátíðinni, sem er minna en á sama tíma í fyrra. Í fyrra var að sögn Jóhannesar metfjöldi fíkniefnabrota á hátíðinni en yfirleitt hafa þau verið í kringum 50. 

Í flestum málum er um að ræða neysluskammta af allri flóru fíkniefna; kannabisi, spítti og kókaíni auk fleiri fíkniefna.

Einn fluttur á sjúkrahús eftir líkamsárás

Þá hafa fimm líkamsárásir verið kærðar til lögreglu í Vestmannaeyjum og eitt mál vegna heimilisofbeldis komið upp. Fjögur málanna voru minni háttar en eitt alvarlegra. Maður var sleginn í andlitið um klukkan þrjú í dag og fluttur á sjúkrahús í Vestmannaeyjum. Lögregla veit ekki frekar um líðan mannsins að svo stöddu. 

Þá hefur eitthvað verið um slagsmál og nokkuð um ölvun en hátíðin hefur að öðru leyti farið vel fram að sögn lögreglu. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert