Nýtur góða veðursins og skemmtir sér

mbl.is/Malín Brand

Mikið hefur verið að gera hjá lögreglunni á Suðurlandi frá því síðdegis í gær og umferðarþungi hefur verið mikill, en að sögn lögreglunnar á Selfossi fer skemmtanahald heilt yfir vel fram. Tvö heimilisofbeldismál komu þó inn á borð lögreglu í nótt.

Umferð um Suðurlandsveg var mjög þung í gær og nóttin var erilsöm hjá lögreglu vegna skemmtanahalds. Þá bárust lögreglu tvær tilkynningar um heimilisofbeldi. Rannsókn þeirra mála er á frumstigi og tjáir lögregla sig ekki um frekar um þau.

Mikið er af fólki á tjaldsvæðum í Árnessýslu og eru flestir samankomnir á Flúðum, þar sem löng bílalest myndaðist nú síðdegis. „Heilt yfir hefur þetta farið vel fram, en þó kemur alltaf eitthvað upp á sem fylgir þegar margir koma saman. Það er alltaf eitthvað um pústra og árekstra,“ sagði lögreglumaður á vakt sem mbl.is ræddi við. „Fólk er að njóta góða veðursins og skemmtir sér vel.“

Einn var stöðvaður í dag vegna gruns um ölvunarakstur og eins stöðvaði lögregla 200 bifreiðir á Flúðum í morgun. Allir ökumenn þeirra bifreiða reyndust í ökufæru ástandi og segir lögregla ökumenn almennt eiga hrós skilið fyrir að vanda sig.

Alltaf er eitthvað um að menn gefi sig fram við lögreglu og óski eftir að fá að blása í áfengismæli og segist lögregla alltaf verða við þeim óskum.

Fleiri lögreglumenn eru á vakt á Suðurlandi en venjulega helgi og sjá nú þrír lögreglubílar um að sinna Árnessýslu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert