Sveitarstjóri meiddist í mýrarbolta

Í hlíðum Kofrans.
Í hlíðum Kofrans. Ljósmynd/Einar Skúlason

Gönguhátíð í Súðavík fer fram í annað sinn fyrir vestan nú um verslunarmannahelgina. Margt er um manninn og veður gott og hefur hátíðin að mestu gengið vel fyrir sig. Pétur G. Markan, sveitarstjóri Súðavíkurhrepps, varð þó fyrir því óláni að meiðast á ökkla í mýrarboltanum á Ísafirði.

„Ég meiddist aðeins, fékk alveg klassískt högg á kúluna og bólgnaði upp og ökklinn þrefaldur,“ segir Pétur í samtali við mbl.is. Hann var kominn yfir í Súðavík þar sem hann segist hafa fengið fyrsta flokks aðhlynningu og er bólgan þegar farin að hjaðna. 

Pétur gat því ekki sinnt leiðsögn í göngu um Súðavík í dag og þurfti Anna Lind Ragnarsdóttir, oddviti hreppsins, því að hlaupa í skarðið sem hún gerði með glæsibrag. Aðrar göngur hafa gengið samkvæmt áætlun í fallegu veðri.

„Ég er nú eiginlega búinn að bíða eftir þessum meiðslum í fimm ár,“ segir Pétur, en um árabil hefur hann keppt með fornfrægu mýrarboltafélagi sem heitir Karaoke. „Ég held að það sé kominn tími á að setja skóna upp í hillu núna, ég held það.“

Kofrinn hápunktur hátíðarinnar

Hátíðin hófst með göngu á Kofrann, sem er 635 metra hár tindur sem stendur beint fyrir ofan Súðavík. Tindurinn virðist að sögn Einars Skúlasonar, eins skipuleggjenda hátíðarinnar, illkleifur við fyrstu sýn en undir leiðsögn reyndra heimamanna geta þeir sem komast á toppinn verið sáttir við sig og notið útsýnisins yfir djúpið. Á mánudagsmorgun verður aftur gengið á Kofrann undir leiðsögn Barða Ingibjartssonar, sem hefur líklega klifið tindinn oftar en nokkur maður.

Barði Ingibjartsson göngustjóri á Kofranum með Álftafjörð og Ísafjarðardjúp í …
Barði Ingibjartsson göngustjóri á Kofranum með Álftafjörð og Ísafjarðardjúp í baksýn. Ljósmynd/Einar Skúlason

Í kvöld kl. 20 verður kveikt í brennu í sundlauginni og kl. 20:30 opnast dyrnar á Samkomuhúsinu. Þar fer fram gönguskóaballið þar sem ballgestir eru hvattir til að mæta í gönguskóm og dilla sér í takt við tónlistina. Harmónikkutónlist verður fyrir utan og inni mun plötusnúður spila „krakkavæna stuðtónlist í bland við gamla slagara“, að sögn Einars. Ekkert aldurstakmark er á dansleikinn, sem er fyrir jafnt unga sem aldna.

Í fyrramálið verður hafragrautur með lifrarpylsu og lýsisskammti í kaupfélaginu og síðdegis verður barnasýning í Melrakkasetrinu og gönguferð um þorpið með sveitarstjóranum eða oddvitanum. Um kvöldið verða svo tónleikar með Skúla mennska í kirkjunni.

Í ár eru fleiri göngur og meira um að vera en í fyrra en boðið verður upp á göngur meðal annars frá Engidal um Þóruskarð í Álftafjörð og á Bardaga í Álftafirði. Þá verður fjölskylduganga í Valagil í Seljadal, en nánari dagskrá hátíðarinnar má nálgast á heimasíðu Súðavíkur.

Vaskur gönguhópur á leið á Kofrann.
Vaskur gönguhópur á leið á Kofrann. Ljósmynd/Einar Skúlason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert