Um 20 farþegar bókuðu annað flug

Ljósmynd/WOW

„Við erum komin til Dublinar og erum að bíða eftir töskunum okkar þar,“ segir farþegi í vél WOW air en vél félagsins sem átti að fara til Dublinar frá Keflavíkurflugvelli í gærmorgun seinkaði um nærri sólarhring.

Í hádeginu í gær fengu farþegarnir að vita að flugi þeirra yrði seinkað til klukkan 23 í gærkvöldi. Í gærkvöldi fengust svo þau skilaboð að brottför yrði seinkað enn frekar.

Sjá frétt mbl.is: 17 tíma seinkun á flugi til Dublinar 

„Við fengum að vita að næstu upplýsingar kæmu á miðnætti, svo klukkan hálf 1 og svo klukkan 1. Klukkan rúmlega 1 fengum við svo að vita að flugið væri klukkan 4 í nótt. Síðan reyndar seinkaði brottför aðeins meira því um 20 erlendir ferðamenn sem voru hvað þreyttastir á þessu höfðu bókað sig með öðru flugi og fóru ekki í vélina. Við þurftum því að bíða í vélinni í hálftíma-40 mínútur á meðan verið var að ná í töskurnar þeirra í vélinni. Ætli vélin hafi ekki verið komin í loftið um 5-leytið,“ segir farþeginn.

Sjá frétt mbl.is: 28 tíma seinkun á flugi til Dublinar

Farþeginn gagnrýnir upplýsingaflæði flugfélagsins í gær en segir að það hafi batnað eftir klukkan 23. Þá hafi farþegarnir farið að fá sms á hálftíma fresti með nýjustu upplýsingum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert