Fámennt en góðmennt á Síldarævintýri

Það er góð stemning þrátt fyrir fámenni á Síldarævintýri 2016.
Það er góð stemning þrátt fyrir fámenni á Síldarævintýri 2016. Ljósmynd/Facebook-síða Síldarævintýris

„Þetta er nú svona með fámennari hátíðum hér síðustu ár,“ segir Kristinn J. Reimarsson, framkvæmdastjóri Síldarævintýris á Siglufirði. Hann ætlar að hátíðargestir séu um þúsund til fimmtán hundruð talsins og telur að fullyrða megi að veðrið hafi þar mest að segja.

„Veðurspáin er búin að vera svona alla vikuna og hefur skemmt svolítið fyrir,“ segir Kristinn. Nokkuð milt var þó í veðri þegar mbl.is náði af honum tali en talsvert kaldara er norður á Siglufirði en víðast hvar sunnan og vestan til á landinu. „Það er bara nánast logn og bara þetta fína veður, það nær kannski tveggja stafa tölunni, 10 gráður eða svo,“ segir Kristinn.

Þótt færra fólk sé en venjulega hefur stemningin verið góð og hátíðahöld farið vel fram. Kristinn segir mikla ánægju vera með fjölbreytileika dagskrárinnar en ýmislegt hefur verið í boði fyrir bæði börn og fullorðna.

Ljósmynd/Facebook-síða Síldarævintýris

Siglfirðingar státa af síldarsöltuninni við Síldarminjasafnið sem vekur að sögn Kristins ávallt mikla lukku. Þá er fjöldi tónlistar- og skemmtiatriða á dagskrá en í gærkvöld voru tónlistaratriði á sviðinu við ráðhústorgið til miðnættis þegar hátíðahöld færðust út á bryggjusvæðið.  Þar var bryggjusöngur og flugeldasýning og tóku svo við dansleikir á öldurhúsum bæjarins.

Í dag verður útimessa í skógræktinni, fjölskylduratleikur og dorgveiðikeppni fyrir börnin. Tónlistin verður svo áfram allsráðandi á sviðinu við ráðhústorgið.

Kristinn segir ósamkomulag vegna löggæslu á hátíðinni ekki hafa sett strik í reikninginn en málið var leyst á föstudag. „Það hefur allt gengið hér bara samkvæmt bókinni og það hefur ekki haft nein eftirmál,“ segir Kristinn.

Frétt mbl.is: Verður ævintýrið haldið í óleyfi?

Það er fjölbreytt dagskrá fyrir börnin á Síldarævintýri 2016.
Það er fjölbreytt dagskrá fyrir börnin á Síldarævintýri 2016. Ljósmynd/Facebook-síða Síldarævintýris
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert