„Getum lært mikið af fólkinu hérna“

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, og Eliza Reid forsetafrú fóru í dag í sína fyrstu opinberu heimsókn til Sólheima í Grímsnesi. Mikil eftirvænting hafði ríkt vegna komu hjónanna, sem var tekið fagnandi af íbúum á svæðinu.

Guðni segist hafa ákveðið að heimsækja Sólheima, meðal annars til að vekja athygli á starfinu sem þar er unnið og sjálfbærninni sem höfð er að leiðarljósi, en hann segir alla geta lært af því. „Mér fannst liggja beint við að fyrsta heimsóknin yrði hingað. Það er svo margt sem við getum lært af fólkinu sem býr hérna,“ sagði Guðni.

„Ég missti andlitið á mér“

Eliza tók undir og sagði heimsóknina afar ánægjulega. Þau hjón hafi áður komið með fjölskyldu sína á Sólheima, en töluvert öðruvísi sé að koma þangað sem forsetahjón. 

Hjónin fengu að heyra um sögu Sólheima og þá fjölþættu starfsemi sem þar fer fram, auk þess sem þau skoðuðu listasýningar, heimsóttu vinnustofur og gróðursettu tré svo fátt eitt sé nefnt. Íbúar á Sólheimum voru afar ánægðir með komu hjónanna, en göngugarpurinn Reynir Pétur segir fregnir af komu þeirra hjóna hafa komið honum á óvart. „Ég missti andlitið á mér og þurfti að skella því á mig aftur til að átta mig á þessu.“

„Hver getur verið á móti Gleðigöngunni?“

Eins og kunnugt er mun Guðni brjóta blað í sögu Hinsegin daga og forsetaembættisins á laugardag þegar hann verður fyrsti forsetinn til að flytja hátíðarávarp að lokinni Gleðigöngu. Guðni segist ekki hafa þurft að hugsa sig tvisvar um þegar hann fékk boðið og hlakkar mikið til að taka þátt í viðburðinum.

„Við fjölskyldan höfum farið og fylgst með Gleðigöngunni síðustu ár og haft mjög gaman að. Þarna koma Íslendingar saman og fagna fjölbreytileika, fagna frelsi og ástfrelsi ef út í það er farið. Því ekki að styðja það? Hver getur verið á móti Gleðigöngunni?,“ sagði Guðni.

Þá er nóg að gera hjá honum á næstu dögum, en áður en hann tekur þátt í Gleðigöngunni mun hann koma við á Fiskideginum mikla á Dalvík á föstudag og flytja svonefnda Vináttukeðjuræðu.

Frétt mbl.is: Fyrsta heimsóknin hafin

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert