Breski tónlistarmaðurinn Eric Clapton veiddi stærsta lax sumarsins í Vatnsdalsá í dag. Leiðsögumaðurinn Sturla Birgisson segir frá þessu í samtali við mbl.is en Clapton þurfti að hlaupa kílómetra niður með ánni áður en hann gat loks landað hængnum.
„Hann krækti í hann um klukkan hálftíu í Línufljóti en landaði svo í Móhellu, sem þýðir að hann fór niður um einn kílómetra og í gegnum marga hyli á leiðinni,“ segir Sturla.
Tveir laxar yfir 100 sentimetrum náðust í dag en John nokkur Watson veiddi 104 sentimetra hæng sem reyndist vera 28 pund. Bardaginn við þann lax tók um hálftíma og voru það hörkuátök sem til þurfti. Á vefsíðu Vatnsdalsár segir svo frá veiði Claptons:
„Í Línufljóti upplifði annar veiðimaður gríðarlegt ævintýri, en hann lét flugu sem kallast Night Hawk í stærð 14 skauta yfir hylinn. Það var ekki að spyrja að því en strax í fyrstu köstunum sýndi augljóslega stór fiskur flugunni áhuga og kom í hana með látum.
Þá var ákveðið að leyfa flugunni að skauta áfram á dauðarekinu og gefa henni tíma. Allt í einu skellti sér einn af höfðingjum Vatnsdalsár á fluguna og vissu veiðimaður og leiðsögumaður að þarna var ekki um neinn eðlilegan lax að ræða.“
„Laxinn var rólegur til þess að byrja með en þegar hann áttaði sig á því að ekki var allt með felldu var fisknum ekki skemmt. Bardaginn hófst fyrir alvöru þegar vinurinn skellti sér niður úr Línufljóti með miklum látum og urðu bæði veiðimaður og leiðsögumaður að taka til fótanna á eftir dýrinu.
Urðu menn að hlaupa á eftir laxinum niður í gegnum Ásbrekkuhyl, Hornfljót, Hólmahyl og niður í Móhellufljót þar sem loksins náðist að hemja dýrið eftir tvo og hálfan klukkutíma. Fyrir þá sem ekki þekkja til þá er þetta um einn kílómetri. Þar var honum loks landað og var hann mældur 108 sentimetrar, sem gerir hann stærsta lax sumarsins hérna í Vatnsdalsá.“
Loks segir að báðir tveir, veiðimaður og lax, hafi verið afar þreyttir eftir allan atganginn og hvílt sig vel og lengi á eftir.
„Þó var lónbúinn aðeins fyrri til að jafna sig og kvaddi með skvettu á viðstadda.“
Laxinn vó um þrjátíu pund og segist Sturla telja öruggt að hann sé sá stærsti sem veiðst hefur í sumar í Vatnsdalsánni. Clapton hefur frá 2009 veitt árlega í Vatnsdalsá að sögn Sturlu.
Lesendum mbl.is til fróðleiks má þess geta að annar breskur veiðimaður veiddi álíka stóran lax í Laxá í Aðaldal fyrr í sumar.