Blönduð leið dregur úr verðtryggingu

Már Wolfgang Mixa, aðjúnkt í fjármálum við Háskólann í Reykjavík, telur að fyrirætlanir Framsóknarflokksins um afnám verðtryggingar, til þess eins að afnema hana, séu góðra gjalda verðar en að einfaldari lausnir séu til staðar.

Hann bendir á að verðtryggð húsnæðislán séu ekki glæpsamleg, þau hafi sína augljósu ókosti en hafi þó reynst ódýrari en óverðtryggð lán, sögulega séð.

Már Wolfgang Mixa, aðjúnkt við Háskólann í Reykjavík.
Már Wolfgang Mixa, aðjúnkt við Háskólann í Reykjavík. mbl.is

„Það er mjög einföld leið til að draga úr vægi verðtryggðra lána,” segir Már Wolfgang sem leggur til að farin verði svonefnd blönduð leið, þ.e. þar sem verðtryggðum og óverðtryggðum lánum er blandað saman. Þannig sé strax búið að draga úr áhrifum verðtryggingarinnar.

Frétt mbl.is: Vilja verðtrygginguna burt í skrefum

Már segir að lauslega sé farið með staðreyndir í allri umræðu um verðtrygginguna, m.a. hversu skelfileg staðan hafi verið fyrir heimili í landinu eftir fjármálahrun vegna verðtryggingarinnar. Bendir hann í því sambandi á það hver staðan var hjá fólki með óverðtryggð lán sem þurfti að gleypa allar vaxtahækkanir samstundis. „Fólk þurfti að greiða allt að fimmtung af lánum sínum í vaxtakostnað,” segir Már um óverðtryggðu lánin og bætir við að fáir hefðu ráðið við slíkar afborganir af óverðtryggðu lánunum þegar stýrivextir fóru í nokkra daga upp í 18 prósent.

Leggur hann til að fólk ráði því hver hlutföllin séu, t.d. 70 prósent verðtryggð og 30 prósent óverðtryggð. Eftir því sem stærri hluti lánsins er verðtryggður þeim mun hægar greiðir fólk niður höfuðstól lánsins á móti því að greiðslubyrðin verður þyngri eftir því sem óverðtryggði hlutinn vegur þyngra í samsetningunni. Telur hann að með slíkri samsetningu þurfi lántakendur að kynna sér kosti og galla hverrar leiðar og verða þar með meðvitaðri um lánið sitt.

Húsnæðisvísitala í stað vísitölu neysluverðs

Þá segir Már að eðlilegra væri ef lánin tækju mið af húsnæðisvísitölu í stað vísitölu neysluverðs. Tekur hann sem dæmi að ef lánað er fyrir hrossakaupum þá væri eðlilegt að fá raunvirði hests til baka auk vaxta. Því sé það merkilegt að verðtryggð húsnæðislán hafi síðustu tvo áratugi verið veitt án þess að tengjast virði húsnæðis heldur miðað við neysluvísitölu.

Hann bendir á að væru lánin tengd húsnæðisvísitölu væru fjármálafyrirtæki og bankar ólíklegri til að lána til fasteignakaupa þegar bólumyndun er á markaði. Bankar myndu ekki vilja sjá lánasafn sitt dragast saman sem nemur lækkun húsnæðisvísitölu og þannig megi koma í veg fyrir ofþenslu á fasteignamarkaði. Að vísu segir hann þann hnökra vera á slíku fyrirkomulagi að fasteignaverð hefur t.a.m. hækkað hlutfallslega mest í miðborg Reykjavíkur sem kæmi niður á fasteignalánum fyrir fasteignum á öðrum svæðum, slíkt mætti þó leysa með svæðisbundinni húsnæðisvísitölu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert