Einn fjögurra viðbragðsflota Atlantshafsbandalagsins liggur nú við kaja , Skarfabakka í Reykjavík, þar sem hann verður þangað til haldið verður á haf út á mánudagsmorgun. Aðeins tvö skip eru þessa stundina í viðbragðshópi 1, eins og þessi tilekni floti er kallaður, en skipafjöldi hans er breytilegur. Aldrei eru þó færri en tvö skip í flotanum. Tíu skip eru í viðbragðshópi 2, sem er um þessar mundir á Svartahafi.
Flaggskip flotans síðan í lok maí á þessu ári er spænska F-100 freigátan Mendez Nuñez en hin freigátan í viðbragðshópnum er á vegum portúgalska sjóhersins og ber nafnið Alvares Cabral. Fjölmiðlum var boðið að skoða skipin í morgun, en viðbragðshópur 1 hefur sinnt verkefnum í Norðursjó og í Eystrasalti síðan í ársbyrjun.
Þegar blaðamann mbl.is bar að garði voru sjóliðar að ferma vörur að og frá borði beggja skipa á meðan aðrir sinntu viðhaldi á ýmsum tækjum og búnaði skipanna. Sagði fjölmiðlafulltrúi portúgalska skipsins það hefðbundið að ýmsu viðhaldi væri sinnt þegar í land væri komið, enda ekki hægt að sinna viðhaldi á ýmsum búnaði skipanna á hafi úti.
Í haust taka Norðmenn við forystu í viðbragðshópi 1 og verður þá norskt skip flaggskip viðbragðshópsins. Sjóliðsforingi viðbragðshóps 1, Jose Enrique Delgado, varaaðmíráll spænska sjóhersins, sagði á blaðamannafundi um borð í Mendez Nuñez í morgun að þrátt fyrir að viðvera flotans í Norðursjó og Eystrasalti kæmi að gagni við eftirlit og björgunaraðgerðir ef því væri að skipta væri fyrsta og síðasta hlutverk flotans að vera reiðubúinn hvenær sem er ef til þess kæmi.
Spænska skipið Mendez Nuñez dregur nafn sitt af D. Casto Méndez Nuñez, sem starfaði sem varaaðmíráll hjá spænska sjóhernum á 19. öld. Spænski sjóherinn á fimm skip af sömu gerð og eru þau búin til að takast á við ýmis verkefni. Sérstaklega eru þau þó útbúin til þess að takast á við loftför.
LAMPS Mk-III þyrla er um borð í skipinu sem búin er skynjurum og vopnum sem gerir þyrlunni kleift að finna og, ef þörf krefur, ráðast á skip eða kafbáta þangað sem vopn freigátunnar ná ekki til. Skipið sjálft er búið AEGIS-vopnakerfi ásamt radarbúnaðinum SPY-1D.
Mendez Nuñez var áður flaggskip flota sem sinnti gæslu undan ströndum Líbíu og tók þar meðal annars þátt í aðgerðum þar sem veiðiskipunum Playa de Bakio og Alakrana var bjargað úr klóm sómalskra sjóræningja. Skipið er 147 metrar að lengd og 19 metrar að breidd.
Um borð í Mendez Nuñez er 231 áhafnarmeðlimur og starfsfólk á vegum NATO en 195 um borð í portúgalska skipinu. Aðeins Portúgalar eru um borð í því portúgalska en blandað þjóðerni á flaggskipinu þar sem starfslið NATO kemur frá ýmsum NATO-ríkjum.
Skipin tvö verða opin almenningi á morgun og á sunnudag frá klukkan 10 til 12 og aftur frá klukkan 15 til 19.