Tæplega þrefalt fleiri sækja um vernd

Þjóðerni umsækjenda um vernd á Íslandi.
Þjóðerni umsækjenda um vernd á Íslandi. Útlendingastofnun

316 einstaklingar hafa sótt um vernd á Íslandi það sem af er ári. Á sama tíma á síðasta ári höfðu 108 umsóknir borist.

Í júlí voru umsóknirnar 42 talsins. Útlendingastofnun afgreiddi 54 mál í mánuðinum, fimm einstaklingum var veitt vernd, einn hafði þegar fengið vernd annars staðar og 21 mál var afgreitt á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar.

Útlendingastofnun

 Fólkið sem sótti um vernd á Íslandi í júlí er frá 11 löndum og eru langflestir þeirra frá Albaníu líkt og aðra mánuði ársins. Alls sóttu 12 Albanar um vernd og tíu Írakar. 36% umsækjenda komu frá löndum Balkanskagans. 69% umsækjenda mánaðarins voru karlkyns og 79% fullorðnir en eitt fylgdarlaust ungmenni sótti um.

Af þeim 54 málum sem afgreidd voru í júlí voru 32 mál tekin til efnislegrar meðferðar, 21 mál var afgreitt með endursendingu á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar og einn umsækjandi hafði þegar fengið vernd annars staðar.

Útlendingastofnun

Af þeim 32 málum sem tekin voru til efnislegrar meðferðar lauk fimm málum með ákvörðun um veitingu verndar, viðbótarverndar eða mannúðarleyfis og 27 málum lauk með synjun. Fimmtán efnismál voru afgreidd á grundvelli forgangsmeðferðar í maí.

Útlendingastofnun

Þeir sem fengu vernd í mánuðinum komu frá Afganistan (1), Írak (1), Palestínu (2) og Sýrlandi (1) en langflestir þeirra sem fengu synjun komu frá Albaníu (23). Þann 31. júlí 2016 voru 145 umsóknir um vernd í vinnslu hjá Útlendingastofnun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert