Borgarstjóri hefur óskað eftir tillögum frá embættismönnum borgarinnar um hvernig best verði staðið að skipulagi og undirbúningi uppbyggingar á landi í Skerjafirði sem Reykjavíkurborg hefur keypt af ríkissjóði.
Landið er keypt samkvæmt samningi sem Katrín Júlíusdóttir, þáverandi fjármálaráðherra, og Dagur B. Eggertsson, þá formaður borgarráðs, gerðu á árinu 2013 en tók ekki gildi fyrr en innanríkisráðherra tilkynnti að „neyðarbrautin“ svokallaða hefði verið aflögð.
Borgin keypti landið á 440 milljónir króna en jafnframt er kveðið á um að ríkið fái hlut af tekjum vegna sölu byggingaréttar á svæðinu. Á sínum tíma var talið að tekjur ríkisins gætu orðið á annan milljarð króna og hlutur Reykjavíkurborgar litlu minni. Hugmyndir voru uppi um að nota hluta tekna ríkisins til að byggja nýja flugstöð, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.