Fresta gildistöku verðlagningarákvæðis

Jón Gunnarsson, formaður atvinnuveganefndar Alþingis.
Jón Gunnarsson, formaður atvinnuveganefndar Alþingis. mbl.is

Meirihluti atvinnuveganefndar Alþingis hefur ákveðið að fresta gildistöku ákvæðis um breytingar á verðlagningarákvæðinu í búvörusamningunum til ársins 2019 þegar samningurinn verður tekinn til endurskoðunar. Þetta segir Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður atvinnuveganefndar.

Ákvörðun meirihlutans má rekja til gagnrýni Samkeppniseftirlitsins um breytingarnar en stofnunin telur breytinguna styrkja markaðsráðandi aðila og takmarka getu stofnunarinnar til að bregðast við.

Segir Jón að athugasemdir Samkeppniseftirlitsins hafi verið teknar til greina. „Þá bíðum við eftir tillögum frá stofnuninni um hvernig styrkja megi stöðu minni framleiðenda á þeim tíma sem gefst áður en endurskoðunin fer fram,“ segir Jón og bætir við að nú sé beðið eftir niðurstöðu frá landbúnaðarráðuneytinu um útfærslu á breytingum vegna útboðs tollkvóta. „Margir telja að sú útfærsla þurfi að liggja fyrir samhliða afgreiðslu þingsins á því sem að búvörusamningunum snýr,“ segir Jón.

Hann segir það bábilju að verið sé að binda stjórnvöld til tíu ára með samningunum þar sem endurskoðunarákvæði sé á samningunum af hálfu stjórnvalda árið 2019 auk þess sem Alþingi hafi aðgang að forsendum samningsins í gegnum afgreiðslu fjárlaga ár hvert.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert