Þvingar foreldra fyrr heim úr vinnu

Hildur Sverrisdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.
Hildur Sverrisdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. mbl.is

Hildur Sverrisdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir ákvörðun borgarinnar um að stytta þann tíma sem frístundaheimili Reykjavíkurborgar eru opin og loka þeim klukkan 17 í stað 17.15 hafa í för með sér verulega þjónustuskerðingu fyrir foreldra margra barna.

„Það kom réttilega fram gagnrýni í byrjun sumars frá foreldrum sem bentu á að þó svo að aðeins væri korter í þjónustuskerðingu þá væri þetta mikið inngrip fyrir marga foreldra,“ segir Hildur í samtali við mbl.is. „Langflestir vinna til fimm og hafa hingað til haft korter til að ná í barnið. Að biðja um að fá að fara úr vinnu fyrir klukkan fimm er miklu meira inngrip en þetta korter ber með sér.“

Á fundi stjórnkerfis- og lýðræðisráðs Reykjavíkurborgar í gær lögðu Hildur og Björn Gíslason, fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í nefndinni, fram bókun þar sem fram kemur að skoða hefði átt betur hvernig hægt hefði verið að halda þjónustunni áfram með því að skera niður annars staðar í kerfinu eða bjóða foreldrum að greiða hóflegt gjald fyrir þá aukaþjónustu sem nú stendur til að skera niður. „Metnaðarfull stefna um frístundaþjónustu missir marks þegar framkvæmd þjónustunnar er svo með slíku sleifarlagi,“ segir í bókuninni.

Hildur segir að hvorki  hafi verið haft samráð um breytingarnar við notendur þjónustunnar né minnihlutann í borginni eða hafi aðrar leiðir verið skoðaðar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert