Nemendur fá öll skólagögn ókeypis

Sandgerðisskóli.
Sandgerðisskóli. mbl.is

Bæjarstjórn Sandgerðisbæjar samþykkti í vetur að útvega nemendum grunnskólans í Sandgerði öll námsgögn gjaldfrjálst. Hólmfríður Árnadóttir, skólastjóri í Sandgerðisskóla, segir ákvörðunina lið í því að auka jöfnuð og tryggja aðgengi allra nemenda að námsgögnum.  

„Þessi þjónusta mun spara foreldrum þúsundir króna en kostnaðurinn fyrir sveitarfélagið er um tvær milljónir króna. Nemendur munu fá öll þau ritföng sem þau þurfa, stílabætur, vasareikni, gráðuboga, blýanta og svo framvegis,“ segir Hólmfríður.

Hólmfríður Árnadóttir, skólastjóri Sandgerðisskóla, ásamt sonum sínum.
Hólmfríður Árnadóttir, skólastjóri Sandgerðisskóla, ásamt sonum sínum. Ljósmynd/Aðsend

Þjónustan hefur mælst vel fyrir 

Hún segir þjónustuna hafa mælst afar vel fyrir og foreldra í Sandgerði ánægða með þessa ákvörðun bæjarstjórnar. Þetta er fyrsta ár Hólmfríðar sem skólastjóri í Sandgerðisskóla en hún hefur verið viðloðandi skólastarf um margra ára skeið. Hún segir það reglulega koma upp að nemendum vanti einhver ritföng þegar skólaárið hefst auk þess sem þau týnist yfir veturinn eða gleymist heima.

„Slíkt getur valdið leiða og getur gert nemendurna óörugga. Við erum með lögfestan barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna um að mismuna ekki börnum og þessi þjónusta er svo sannarlega liður í því að auka jöfnuð og tryggja aðgengi allra nemenda að þeim gögnum sem þarf hverju sinni,“ segir Hólmfríður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert