Sleppa við sektirnar úr hraðamyndavélum

Það sem af er ári hafa um 5.600 hraðasektir erlendra …
Það sem af er ári hafa um 5.600 hraðasektir erlendra ferðamanna verið látnar niður falla. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Færst hefur í aukana að númeraplötur séu fjarlægðar framan af bifreiðum til þess að komast hjá hraðasektum. „Við höfum engar sannanir um þetta en það er að aukast að númerslausir bílar að framan náist á hraðamyndavélar. Nánast í hverri viku er verið að senda myndir á landsvísu af ökutækjum og ökumönnum til allra lögreglumanna til þess að athuga hvort þeir geti borið kennsl á ökutækin eða ökumanninn,“ segir Guðbrandur Sigurðsson, aðalvarðstjóri umferðardeildar lögreglunnar.

200 teknir númerslausir að framan 

Um 200 ökumenn á landsvísu hafa verið kærðir það sem af er ári fyrir að vera með bílana sína númerslausa að framan en um 122 af þeim voru teknir á höfuðborgarsvæðinu. Ef skráningarmerkjum er áfátt varðar það 10.000 króna sekt. Í síðustu viku var gerð könnun á því hversu hátt hlutfall ökutækja væri án skráningarmerkja og segir Guðbrandur hlutfallið ekki hafa verið hátt. „Það var ekki hátt brotahlutfall þannig að ég hallast nú að því að þetta sé ekki almennt í umferðinni en af myndunum að dæma sýnist mér þetta vera meira og minna á kvöldin og á nóttinni. Það vekur grun um að menn séu að taka númerin af og smella þeim síðan aftur á þegar komið er á leiðarenda,“ segir Guðbrandur.

Það hefur verið að færast í aukana að númeraplötur vanti …
Það hefur verið að færast í aukana að númeraplötur vanti framan á bíla í hraðamyndavélum. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Ferðamenn teknir á meiri hraða en Íslendingar 

Málið flækist síðan þegar um bílaleigubíla er að ræða en erfitt getur verið að innheimta hraðasektir hjá erlendum ferðamönnum sem nást á hraðamyndavélar. Bílaleigurnar sjálfar bera ábyrgð á ástandi ökutækisins en ökumaðurinn ber ábyrgð á akstrinum.

Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, segir meirihluta þeirra sem höfð eru afskipti af vegna hraðaksturs á Suðurlandi vera erlenda ferðamenn. „Ég er ekki með neinar tölur núna en í fyrra var þetta um 60% sem voru erlendir ferðamenn og það merkilega er að þeir voru teknir á mun meiri hraða en þeir Íslendingar sem voru að brjóta af sér,“ segir Oddur.

Þegar erlendir ökumenn eru teknir fyrir of hraðan akstur á staðnum greiða þeir sektina nánast alltaf á vettvangi en ef ekki er reynt að ljúka málinu með sektargerð sem er þá aðfararhæf í þeim löndum sem Ísland er samningsaðili við varðandi fullnustu refsingar.

Lögreglan segir brýna þörf á lagabreytingu svo hægt sé að …
Lögreglan segir brýna þörf á lagabreytingu svo hægt sé að innheimta hraðasektir erlendra ferðamanna sem nást á hraðamyndavélar. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Hafa hvorki mannskap né burði til innheimtu sekta

Þegar ferðamennirnir eru aftur á móti teknir á hraðamyndavél getur reynst erfiðara að innheimta sektirnar. Lögreglan á Vesturlandi í Stykkishólmi sér um að vinna úr sektum úr hraðamyndavélum á landsvísu. Ólafur Guðmundsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Vesturlandi, segir mörg mál látin niður falla þar sem lögreglan hafi hvorki fjármagn né mannskap til þess að senda út sektarboð til ferðamanna búsettra erlendis. „Við höfum sent út sektarboð ef sektirnar fara yfir 30.000 krónur og það er svona 40-50% innheimta á þeim. En við höfum hvorki haft mannskap né burði til þess að senda á eftir öllum,“ segir Ólafur.

Þörf á lagabreytingu 

Árið 2013 voru um 3.090 mál látin niður falla hjá einstaklingum með erlent ríkisfang og á bílaleigubílum sem teknir voru á hraðamyndavélar. Árið 2014 voru málin 6.122, árið 2015 8.416 og það sem af er ári nú hafa um 5.600 mál verið látin niður falla. Ólafur segir augljóst að ef taka eigi á þessu máli þurfi að breyta löggjöfinni.

Guðbrandur er sammála Ólafi í þessum efnum og segir brýna þörf á lagabreytingu svo hægt sé að fylgja ferðamönnum og öðrum þegnum landsins eftir með eftirfylgni um að menn borgi sektir fyrir þau brot sem þeir hafi sannarlega framið sjálfir. Víða í nágrannalöndum Íslands sjá bílaleigur um að draga sektir af kortum hjá ferðmönnum því þar þarf skráður eigandi ökutækis að gera grein fyrir þeim brotum sem framin eru á bílnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert