Var látinn þegar bíllinn fannst

Ökumaður bifreiðar sem fór í höfnina á Hvammstanga síðdegis í dag var látinn þegar bifreiðin fannst. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá lögreglunni á Norðurlandi vestra. 

Á fimmta tímanum í dag barst tilkynning um að bifreið hefði verið ekið í sjóinn við höfnina á Hvammstanga og var strax haft samband við alla tiltæka viðbragðsaðila á svæðinu. Þá voru einnig fengnir til aðstoðar kafarar frá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins og voru þeir fluttir á vettvang með þyrlu Landhelgisgæslu Íslands.

Kafari frá brunavörnum Húnaþings vestra fann bifreiðina síðan á hafsbotni um 30 metra frá bryggjunni skömmu fyrir klukkan 17.

Ökumaðurinn, karlmaður á sextugsaldri, var einn í bifreiðinni. Ekki er unnt að greina frá nafni hins látna að svo stöddu.

Lögreglan á Norðurlandi vestra annast rannsókn málsins.

Bifreið í höfnina á Hvammstanga

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert