18 mánaða fangelsi fyrir líkamsárás í strætó

Héraðsdómur Reykjaness.
Héraðsdómur Reykjaness. mbl.is/Ómar Óskarsson

Maður hefur í Héraðsdómi Reykjaness verið dæmdur í 18 mánaða fangelsi fyrir líkamsárás sem hann framdi í strætisvagni í júlí 2015. Málið gegn manninum var sameinað öðru máli og nær dómurinn jafnframt yfir þjófnað, rán og nytjastuld.

Veittist maðurinn að fórnarlambi í strætisvagni í Kópavogi, tók það hálstaki og herti að öndunarvegi með þeim afleiðingum að fórnarlamb missti meðvitund og hlaut yfirborðsáverka á hálsi. 

Þá stal maðurinn tveimur rafmagnsvespum fyrir utan sundlaug í Kópavogi og kom þeim fyrir í bakgarði heimilis síns. Þá framdi maðurinn rán við strætóskýli í Kópavogi þar sem hann ógnaði manni með kúbeini og hafði af honum úlpu, veski og snjallsíma. Loks var maðurinn dæmdur fyrir nytjastuld fyrir að hafa í maí ekið rafmagnsvespu í heimildarleys.

Ákærði játaði brot sín skýlaust og skal sæta fangelsi í 18 mánuði en fresta skal fullnustu 15 mánaða af refsingunni og sá hluti hennar falla niður að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dómsins haldi ákærði almennt skilorð. Þá ber ákærða að greiða þóknun skipaðs verjanda síns að upphæð 768.800 krónur og 36.000 krónur í annan sakarkostnað. Á maðurinn að baki nokkurn sakaferil og hefur til að mynda hlotið dóma fyrir brot gegn umferðarlögum, lögum um ávana- og fíkniefni og gegn vopnalögum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert