Embætti umboðsmanns neytenda verði stofnað

Brynhildur Pétursdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar, er fyrsti flutningsmaður tillögunnar.
Brynhildur Pétursdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar, er fyrsti flutningsmaður tillögunnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þingsályktunartillaga um fjögurra ára áætlun um ýmis mál til hagsbóta fyrir neytendur hefur verið lögð fram á Alþingi. Þar er meðal annars lagt til að stofnað verði nýtt embætti umboðsmanns neytenda sem hafi mjög skýrt og afmarkað hlutverk.

Brynhildur Pétursdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar, er fyrsti flutningsmaður tillögunnar. Þar er gert ráð fyrir því að embætti umboðsmanns neytenda verði markað skýrt verksnið sem myndi ekki skarast við starfsemi Neytendasamtakanna og annarra stofnana eða samtaka sem sinna neytendamálum.

„Nauðsynlegt er að endurskilgreina hlutverk Neytendastofu og kanna hvort rétt sé að breyta verksviði stofnunarinnar þannig að hún starfi sem einhvers konar umboðsmaður neytenda að norrænni fyrirmynd sem hefði skýrt afmarkað hlutverk,“ segir í þingsályktunartillögunni. 

Ítrekað hafi verið lagt til að embætti umboðsmanns neytenda verði stofnað. Umboðsmaður neytenda tæki þá yfir verkefni Neytendastofu auk annarra verkefna sem snúa að neytendavernd. Í skýrslu um neytendavernd á fjármálamarkaði sem kom út árið 2013 er lagt til að þessi leið verði farin og eru tillögurnar að mestu þaðan.

Þá þurfi að skoða hvort hið nýja embætti taki yfir skyldur og verkefni Fjármálaeftirlitsins sem snúa að neytendamálum með beinum hætti. Umboðsmaður neytenda verði sjálfstæður í störfum sínum og hafi ríka frumkvæðisskyldu til rannsókna, ekki síst á fjármálamarkaði.

„Tryggja þarf umboðsmanni neytenda fullt sjálfstæði og sambærilegar valdheimildir og annars staðar á Norðurlöndunum. Umboðsmaður sinni öflugu eftirliti og auki vitund neytenda til að veita samkeppnislegt aðhald.“

Auk þess er lagt til að atriði sem snúa beint að neytendum verði meginviðfangsefni hins nýja embættis umboðsmanns neytenda. Þau ákvæði í lögum nr. 57/2005 sem standa fjær beinum hagsmunum neytenda og eru í grunninn samkeppnisréttarlegs eðlis verði flutt úr lögunum og eftirlit með þeim verði fært til annarra stofnana.

Við endurskoðun á embætti umboðsmanns skuldara verði samlegðaráhrif embætta umboðsmanns skuldara og umboðsmanns neytenda höfð í huga. Gerður verði ítarlegur samstarfssamningur milli umboðsmanns skuldara, umboðsmanns neytenda og Fjármálaeftirlitsins til að tryggja upplýsingaskipti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert