Halli á rekstri Háskóla Íslands

Launakostnaður Háskóla Íslands jókst um 11,5% á síðasta ári, aðallega …
Launakostnaður Háskóla Íslands jókst um 11,5% á síðasta ári, aðallega vegna launahækkana. mbl.is/Ómar Óskarsson

Þrátt fyrir að framlög úr ríkissjóði til Háskóla Íslands hafi aukist um milljarð króna á milli ára varð 130 milljóna króna halli á rekstri skólans í fyrra, að því er kemur fram í ársreikningi sem kynntur var á ársfundi HÍ í dag. Útgjöld háskólans jukust um tæpa tvo milljarða króna á milli ára, að stórum hluta vegna aukins launakostnaðar.

Tekjur skólans fyrir utan ríkisframlagið jukust einnig frá árinu 2014 til 2015 um 700 milljónir króna. Ríkisframlagið nam um 12,1 milljarði króna. Það nær engu að síður ekki að halda í við útgjaldaaukningu HÍ. Útgjöldin námu 17,9 milljörðum í fyrra en þau voru 16 milljarðar árið 2014. Því var 129,8 milljóna króna halli á rekstri skólans í fyrra en hann hafði skilað 52 milljóna króna afgangi árið áður.

Í ársreikningnum kemur fram að launagjöld háskólans hafi hækkað um tæpa 1,3 milljarða króna á milli ára eða 11,5% í heild. Meirihluti hækkunarinnar er vegna hækkunar launa í kjölfar nýrra kjarasamninga, alls 8%. Um 3,5% hækkun varð vegna fjölgunar ársverka við skólann.

Launakostnaður er enn fremur langstærsti útgjaldaliður háskólans. Alls greiddi HÍ rétt tæpa 12,5 milljarða króna í launagjöld á síðasta ári.

Tekjur og gjöld skólans voru svo gott sem í samræmi við fjárheimildir sem honum var úthlutað í fyrra. Gjöldin fóru rúmum 71 þúsund krónum fram úr heimildum en tekjur voru hins vegar tæpum 130 þúsund krónum meiri en reiknað var með. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert