Háskólarnir skildir eftir

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands. mbl.is/Kristinn

Ekki er hægt að fresta lengur aukinni fjárfestingu í háskólastiginu á Íslandi, að sögn Jóns Atla Benediktssonar, rektors Háskóla Íslands. Á ársfundi skólans í dag sagði hann fimm ára fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar gífurleg vonbrigði því háskólarnir væru skildir eftir þegar kæmi að uppbyggingu innviða.

Stjórnendur HÍ kynntu nýja fimm ára stefnu til ársins 2021 á ársfundinum í dag og sagði Jón Atli að markmið skólans væri að sækja fram í rannsóknum og kennslu auk þess að auka gæði og styrkja innviði hans.

Rektorinn varaði hins vegar við undirfjármögnun háskólastigsins sem ekki væri deilt um að væri staðreynd. Þannig væru meðaltalsframlög á hvern nemanda þriðjungi hærri í löndum OECD en á Íslandi. Tvöfalda þurfi framlögin með hverjum nemanda til að ná meðaltali Norðurlandanna.

Í þessu samhengi sagði Jón Atli að fimm ára fjármálaáætlun sem ríkisstjórnin lagði fram nýlega hafi verið háskólanum gífurleg vonbrigði á sama tíma og allir hagvísar vísi upp.

Sagði hann HÍ vel rekna stofnun sem hafi tekist að halda jafnvægi í rekstrinum um árabil með ráðdeild. Þrátt fyrir það hafi hann verið rekinn með halla í fyrra í fyrsta skipti.

„Ef ekki á að stefna uppbyggingarstarfinu í hættu er komið að því að stjórnvöld láti verkin tala og efli háskólastigið,“ sagði rektor.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert