Ráðherra getur ekki beitt sér í málinu

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra.
Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra. mbl.is/Golli

„Þetta er gríðarlega alvarleg staða,“ segir Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, í samtali við mbl.is, um þá stöðu sem upp er komin við framkvæmdirnar á Bakka. Úrsk­urðar­nefnd um­hverf­is- og auðlinda­mála felldi á föstu­dag tvo úr­sk­urði um stöðvun fram­kvæmda vegna ákv­arðana sveit­ar­stjórn­ar Þing­eyj­ar­sveit­ar um að samþykkja fram­kvæmda­leyfi fyr­ir Þeistareykjalínu 1 og Kröflu­línu 4.

Frétt mbl.is: Uppbygging á Bakka í uppnámi

„Það sem ég hef áhyggjur af eru náttúrlega áhrif þessa á þær framkvæmdir sem eru komnar á fullt skrið á Bakka og þær afleiðingar sem töf á þessum framkvæmdum getur valdið,“ segir Ragnheiður Elín.

Hún kveðst þó ekki munu beita sér vegna málsins þar sem kæran sem nú er til meðhöndlunar heyrir ekki undir löggjöf hennar ráðuneytis. „Þetta er úrskurðarnefnd um umhverfis- og auðlindamál og er á forræði umhverfisráðherra þannig að ég get ekkert gripið þar inn því að það er ekki á mínu forræði.“

Flækjur milli ráðuneyta

Ráðherra kveðst hugsi yfir því að verklag við ákvarðanatöku vegna framkvæmda af þessum toga sé með þeim hætti að upp geti komið staða sem þessi á lokametrum verkefnisins. Telur hún það vera nokkuð sem ber að laga í stjórnsýslunni og verkferla þurfi að samræma. „það eru greinilega þarna flækjur á milli ráðuneyta, milli málaflokka, sem þarf að greiða úr og ég held að það sé mjög brýnt verkefni,“ útskýrir Ragnheiður Elín.

Framkvæmdir á Bakka.
Framkvæmdir á Bakka. Morgunblaðið/Helgi Bjarnason

Með breytingum á raforkulögum segir Ragnheiður Elín að reynt hafi verið að koma í veg fyrir að slík staða komi upp. Kæruferli, umsagnir, samráð og samtal hafi verið fært fremst í ferlið og þegar því er lokið sé fyrst unnt að veita framkvæmdaleyfi og framkvæma umhverfismat svo framkvæmdirnar hafi eðlilegan framgang.

Frétt mbl.is: Tafir heimatilbúinn vandi

„Það er ekki nóg að við gerum það bara í okkar löggjöf, þetta dæmi er bara mjög skýrt að því leytinu til að við þurfum að samræma það miklu betur á milli mismunandi ráðuneyta og stjórnsýslunnar almennt,“ útskýrir Ragnheiður Elín.

Vonar að nefndin afgreiði málið fljótt

Þá telur hún skrítið að lagabreyting á náttúruverndarlögum, sem tóku gildi 2015, skuli með þessum hætti og á þessum tímapunkti hafa áhrif á framkvæmd sem fékk umhverfismat árið 2008. „Ég vona bara svo sannarlega að menn afgreiði þetta út úr nefndinni eins fljótt og auðið er og mér líst ekkert á að það eigi að þurfa að taka einhverja mánuði, jafnvel í flýtimeðferð,“ segir Ragnheiður Elín. Bindur hún vonir við að greiðist úr málinu sem fyrst til að koma í veg fyrir skaða.

Frétt mbl.is: Niðurstaða líkleg fyrir áramót

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert