Bílferðir þriðja áratugarins

Berthold Sæberg, athafnamaður, við Overland-leigubifreið sína árg. 1918. Um tíma …
Berthold Sæberg, athafnamaður, við Overland-leigubifreið sína árg. 1918. Um tíma hafði Hafnarfjarðarstöð hans útibú við Lækjartorg í Reykja- vík þar sem myndin er tekin. Bílstjórar voru fínir í tauinu og nutu virðingar í samfélaginu. Bergur Jónsson bílstjóri kemur gangandi fyrir aftan bílinn. Ljósmyndir/Úr safni Bergs Jónssonar/Hafsteins Jónssonar.

„Það er alveg ótrúlegt hvað minningargreinarnar í Morgunblaðinu hjálpuðu mér mikið við leitina. Þær eru alveg stórkostlegar! Þið megið ekki hætta að birta þær! Þar eru upplýsingar sem hvergi annars staðar er að finna.“

Þetta segir Hafsteinn Jónsson um leið og hann sýnir blaðamanni fjölda ljósmynda frá fyrri hluta síðustu aldar. Þær komu óvænt í ljós í pappakassa sem hann fékk í hendurnar þegar faðir hans, Jón Snorri Bergsson, lést fyrir nokkrum árum, en myndirnar hafði föðurafi Hafsteins, Bergur Jónsson, bílstjóri og síðar pípulagningameistari, tekið. Í kassanum voru líka margar gulnaðar úrklippur úr íslenskum blöðum frá fyrri tíð sem límdar höfðu verið inn í möppu.

„Ég hafði lengi ætlað mér að gera eitthvað við þetta efni,“ segir Hafsteinn í ítarlegri umfjöllun um myndirnar í Morgunblaðinu í dag. Hann er tæknifræðingur að mennt og hefur verið búsettur í Karlstad í Svíþjóð um langt árabil og starfar þar sem framkvæmdastjóri við ljósleiðarafyrirtæki. Ljósmyndirnar voru hins vegar óárennilegar við fyrstu sýn, óflokkaðar í umslögum og sumar í albúmi þar sem heldur var ekki gott að átta sig á tíma og samhengi. Nöfn voru á fæstum myndanna.

Hjálp á netinu

„Að gamni ákvað ég að setja eina mynd af afa í gömlum bíl inn á síðu fyrir gamlar íslenskar ljósmyndir á Facebook,“ segir Hafsteinn. „Myndin er tekin fyrir utan hús með skilti sem á stendur „Bifreiðastöð.“ Mig minnti að afi hefði verið að vinna hjá Bifreiðastöð Steindórs, því ég man að hann sagði eitthvað um Steindór í einni af mörgum heimsóknum til hans í gamla daga. Ég skrifaði við myndina að þarna væri afi minn á bílaplaninu hjá Steindóri. Fljótlega fékk ég að vita að bifreiðin er Buick árgerð 1925. Einhver spurði hvort myndin gæti mögulega verið tekin í Hafnarfirði. Hvort ekki sæist í þakið á Hótel Hafnarfirði? En hvað ætti afi svo sem að hafa verið að gera þar? Ég skoðaði myndirnar betur og fann fleiri sem voru teknar á sama stað. Á einni gat ég lesið „Brauð og kökur“ og símanúmerið 32. Ég fór að leita á netinu og fann bakarí Garðars Flygenring í Hafnarfirði. En af hverju var afi þar? Svo uppgötvaði ég að Garðar var líka bílstjóri. Voru Garðar og afi að vinna saman? Næst fann ég út að í Hafnarfirði var á þessum tíma bifreiðastöð sem hafði sama símanúmer og Garðar bakari, nefnilega Bifreiðastöð Sæbergs. Ég hringdi í eldri bróður minn og við reyndum að rifja saman upp minningar okkar frá samtölum við afa sem lést árið 1974. Eitthvað hafði hann sagt um Hafnarfjörð. En var hann að vinna þar? Og hvað var þetta sem hann sagði um Steindór? Ja, hann fór að minnsta kosti aldrei með leigubílum frá Steindóri, hringdi alltaf í Hreyfil eða Bæjarleiðir. Svo fletti ég úrklippubókinni og sá að ein greinanna fjallaði um Sæberg.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert