Líf og fjör í túninu heima

Mikið líf og fjör er í Mosfellsbæ um helgina þar sem bæjarhátíðin Í túninu heima fer fram. Fjölmargir viðburðir eru á dagskrá og ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. 

Frétt mbl.is: Öllu tjaldað til í Mosfellsbæ

Íbúar og aðrir gestir eru hvattir til að skilja bílana eftir heima og ganga eða hjóla í bæinn, eða nýta sér almenningssamgöngur en ókeypis verður í leið 15 á laugardaginn.

Í dag munu fara fram árlegir viðburðir eins og stórsýning í umsjón Flugklúbbs Mosfellsbæjar á flugvélum og fornbílum á Tungubökkum. Mosfellingar bjóða í garðinum heima upp á tónlist og uppákomur fyrir gesti. Auk þess eru barnadagskrá, skottmarkaður og vinsælu útimarkaðirnir í Mosfellsdal og í Álafosskvos á sínum stað. Dagskrá verður á íþróttasvæðinu við Varmá þar sem kjúklingaframleiðendur bjóða gestum að smakka framleiðslu sína.

Á laugardagskvöld verða haldnir útitónleikar á Miðbæjartorgi. Dagskránni þar lýkur með glæsilegri flugeldasýningu í umsjón Björgunarsveitarinnar Kyndils.

Þá fer Tindahlaup Mosfellsbæjar fram en það er utanvegahlaup eða náttúruhlaup þar sem boðið er upp á fjórar vegalengdir. Hlaupin er ein leið til að njóta þeirrar frábæru aðstöðu sem Mosfellsbær býður upp á í útivist og hreyfingu. Hlaupið byrjar og endar við íþróttamiðstöðina að Varmá. Þátttakendum fjölgar ár frá ári en á síðasta ári hlupu um 120 manns. Ýmsir íþróttaviðburðir hafa verið hluti af bæjarhátíðinni frá upphafi enda Mosfellsbær heilsueflandi samfélag sem leggur áherslu á að gera holla valkosti aðgengilega í hvívetna að því er fram kemur í fréttatilkynningu.

Búið er að semja sam­nefnt lag í til­efni hátíðar­inn­ar eftir Agnesi Wild og Sigrúnu Harðardóttur sem fengu til liðs við sig þjóðþekkta söngvara sem eiga það sameiginlegt að búa í Mosfellsbæ.

Hægt er að kynna sér dagskrána nánar á vef hátíðarinnar og á Facebook-síðu hátíðarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert