Gjaldtaka lögreglu sögð í bága við lög

Úrskurður ráðuneytisins þætti að líkindum fordæmisgefandi.
Úrskurður ráðuneytisins þætti að líkindum fordæmisgefandi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mörg sveitarfélög á landsbyggðinni hafa í áraraðir verið krafin um greiðslu löggæslukostnaðar vegna bæjarhátíða, jafnt lítilla sem stórra.

Á sama tíma hefur Reykjanesbær ekkert þurft að greiða vegna Ljósanætur og Reykjavíkurborg ekki heldur vegna Menningarnætur, fjölmennustu hátíðar landsins.

Sveitarstjórar og formenn ýmissa hátíðarnefnda greina frá megnri óánægju sinni vegna þessa. Horfa þeir nú margir til ágreinings Fjallabyggðar og lögreglustjórans á Norðurlandi eystra um löggæslukostnað vegna Síldarævintýris á Siglufirði, sem fram fór síðustu verslunarmannahelgi.

Úrskurðar beðið víða um land

Lögreglan hafði þá sett það skilyrði fyrir jákvæðri umsögn til sýslumanns, um útgáfu svokallaðs tækifærisleyfis, að löggæslukostnaður yrði greiddur. Svo fór að sveitarfélagið samþykkti að hlíta úrskurði atvinnuvegaráðuneytisins og er hans nú beðið víða um land.

Hann þætti enda að líkindum fordæmisgefandi, segir Guðjón Bragason, sviðsstjóri lögfræði- og velferðarsviðs Sambands íslenskra sveitarfélaga.

„Það myndi maður ætla og miðað við þau lögskýringargögn sem til staðar eru sé ég ekki hvernig komist verður að annarri niðurstöðu en þeirri að sveitarfélögin eigi ekki að þurfa að borga þetta.“

Ekki er lengur greiddur löggæslukostnaður vegna Írskra daga á Akranesi.
Ekki er lengur greiddur löggæslukostnaður vegna Írskra daga á Akranesi.

Mótuð virðist stefna um enga gjaldtöku

Guðjón vísar meðal annars til álits samgöngunefndar Alþingis um frumvarp til laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald.

Áréttaði nefndin að ákvæði um tækifærisleyfi gilti einungis um skemmtanir og atburði sem færu fram utan veitinga- og gististaða í atvinnuskyni. Segir svo í álitinu:

„Undir ákvæðið falla því ekki atburðir og skemmtanir á vegum sveitarfélaga, t.d. bæjarhátíðir og æskulýðs- og íþróttahátíðir sem ekki eru haldnar í atvinnuskyni, en í slíkum tilvikum er aðgangur ekki seldur að skemmtun eða atburði.“

„Miðað við vilja löggjafans, sem framkvæmdavaldið hlýtur að fara eftir, virðist mótuð sú stefna að þarna eigi ekki að taka gjald fyrir,“ segir Guðjón.

Akranes náði samkomulagi

Akraneskaupstaður var jafnan krafinn um milljón króna vegna Írskra daga þar til lögregluembættin voru sameinuð fyrir tæpum tveimur árum.

„Við náðum samkomulagi við nýja lögreglustjórann um að við myndum ekki greiða þennan kostnað,“ sagði Regína Ásvaldsdóttir, bæjarstjóri Akraness, í Morgunblaðinu í júlí.

Þá voru aðstandendur Mýrarboltans iðulega krafðir um allt að 600 þúsund krónur, þar til þeir útvistuðu dansleikjunum til þeirra sem hafa staðbundin skemmtanaleyfi á Ísafirði.

„Við stóðum ekki fyrir neinum skemmtunum í ár, svo við sluppum vel,“ segir Jóhann Bæring Gunnarsson, einn stofnenda Mýrarboltans.

ÍBV var krafið um 4,5 milljónir króna vegna Þjóðhátíðar í …
ÍBV var krafið um 4,5 milljónir króna vegna Þjóðhátíðar í ár.

ÍBV krafið um 4,5 milljónir

Misjafnt er eftir því hvar drepið er niður fæti hvort verðið hækkar, lækkar eða stendur í stað á milli ára. Viðmælendum þykir mörgum lítil sem engin rök færð fyrir verðhækkunum þegar svo ber undir.

Íþróttabandalag Vestmannaeyja var krafið um greiðslu 4,5 milljóna króna fyrir löggæslukostnað í ár. Krafan hljóðaði upp á fjórar milljónir á síðasta ári.

Þá var Seyðisfjarðarkaupstaður krafinn um 140 þúsund krónur á síðasta ári vegna hátíðarinnar LungA, en sýnu minna í ár, kr. 124.000.

Á Höfn í Hornafirði hefur lögreglan krafist 600 þúsund króna, en síðustu skipti hefur upphæðin verið á bilinu 300 til 350 þúsund krónur.

Krafðir um sömu upphæðina

Við nánari athugun kemur einnig í ljós mögulegt misræmi innan sama lögregluumdæmis, þrátt fyrir að reglugerð kveði á um að gæta skuli „samræmis við ákvörðun löggæslukostnaðar innan lögregluumdæmis þannig að sambærileg mál hljóti sambærilega meðferð.“

Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins mættu um 4-5.000 manns á Mærudaga en um 33.000 á Fiskidaginn mikla. Lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra krafði þó aðstandendur beggja hátíða um sömu upphæð, eða 600 þúsund krónur.

Daníel Guðjónsson, yfirlögregluþjónn hjá embættinu, segir að ákveðið hafi verið að innheimta jafnt fyrir hátíðirnar, þrátt fyrir stærðarmuninn. „Kannski verður þetta gert öðruvísi næsta sumar en í vor var ákveðið að gera þetta svona.“

Leiðrétt: Í fréttinni var þess áður getið að ÍBV stæði fyrir Þjóðhátíð með styrkjum frá Vestmannaeyjabæ. Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðhátíðarnefnd er raunin ekki sú, og er það hér með leiðrétt.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert