Líf og fjör á Seltjarnarnesi um helgina

Mikið var um gleði á Seltjarnarnesi um helgina þar sem bæjarhátíð Seltjarnarness fór fram. Hátíðin hefur nú verið haldin nokkur ár í röð en var hátíðin í ár sú umfangsmesta til þessa þar sem fjölbreytt dagskrá var á boðstólum. 

„Það hefur verið góð þátttaka og veðrið hefur náttúrlega bara verið upp á sitt besta, maður þakkar fyrir að það var ekki rok og rigning,“ segir Sjöfn Þórðardóttir, verkefnisstjóri hátíðarinnar, í samtali við mbl.is. 

Brekkusöngurinn vakti mikla lukku á föstudagskvöldið þar sem Ingó Veðurguð stýrði söng, Jóhann Helgason tók Seltjarnarneslagið ásamt félögum og fram komu fleiri tónlistarmenn af Nesinu. „Það var alveg meiri háttar,“ segir Sjöfn en fjölmenni lagði leið sína á brekkusönginn og telur hún að um þúsund manns hafi tekið þátt í honum. Boðið var upp á kjötsúpu í brekkunni og Bæjarins beztu buðu upp á pylsur. „Því var afar vel tekið af bæjarbúum, ég held að þetta sé svo sannarlega komið til að vera,“ útskýrir Sjöfn.

Þá hitti sundlaugapartýið sem fram fór á föstudaginn vel í mark, frítt var í laugina allan daginn, boðið var upp á tónlistaratriði og vatnasúmba tekið í lauginni við mikla lukku.

Súmba í sundlauginni.
Súmba í sundlauginni. Ljósmynd/Sjöfn Þórðardóttir

Götugrill bæjarins fóru fram í gærkvöld þar sem stemmningin var gríðargóð. Sjöfn segir ánægjulegt hvað bæjarbúar tóku höndum vel saman og allir tóku þátt, ungir sem aldnir. „Það var gaman að sjá að sumir voru bara með kók í gleri og rör og svona,“ segir Sjöfn létt í bragði. Hljómsveitin Bandmenn hélt svo uppi fjörinu og lék fyrir dansi á stuðballinu í Félagsheimili Seltjarnarness fram eftir nóttu.

Þá kepptust íbúar Seltjarnarness við að skreyta húsin sín í einkennislit síns hverfis um helgina og voru úrslit gerð kunn í appelsínugulu messunni sem haldin var í Seltjarnarneskirkju í dag þar sem veitt voru verðlaun fyrir frumlegustu húsaskreytinguna.

„Það er ekki hægt að halda svona án íbúanna, þeir eru þátttakendurnir og mynda stemmninguna. Þannig að þetta hefur bara verið virkilega gaman og tekist mjög vel til,“ segir Sjöfn að lokum.

Er þessi að laumast til að taka víkingaklappið efst í …
Er þessi að laumast til að taka víkingaklappið efst í brekkunni? Ljósmynd/Sjöfn Þórðardóttir
Bæjarins beztu buðu upp á pylsur.
Bæjarins beztu buðu upp á pylsur. Ljósmynd/Sjöfn Þórðardóttir



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert