Staða fjölmiðla áhyggjuefni

Katrín Jakobsdóttir.
Katrín Jakobsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég get tekið undir með þeim sem hafa áhyggjur af stöðu fjölmiðla,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, í umræðuþættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun. Þar var rekstrarumhverfi fjölmiðla og staða Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði rætt.

Auk Katrínar voru Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, og Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, gestir í þættinum, sem Heimir Karlsson stýrði.

„Ég tel það æskilegustu framtíðarsýnina að RÚV sé ekki á auglýsingamarkaði. En þá þarf að tryggja rekstrargrunn með útvarpsgjöldum,“ sagði Katrín og benti á að annars staðar á Norðurlöndum og í Bretlandi væri til að mynda farin þessi leið. Á þeim tíma sem hún hefði verið menntamálaráðherra hefði verið gripið til aðgerða með því að minnka hlut RÚV á auglýsingamarkaði, en núverandi stjórn hefði hins vegar fært hlutina í fyrra horf. 

Katrín sagðist telja að góðir möguleikar væru til þess að hægt væri að ná þverpólitískri sátt um málið. „Það er hægt að fara ýmsar leiðir, ekki bara varðandi auglýsingamarkaðinn heldur líka skattalega hvata. Það hlýtur að vera áhyggjuefni ef við höfum það á tilfinningunni að fjölmiðlar séu í erfiðri stöðu.“

Ekki nóg að taka RÚV af auglýsingamarkaði

Helgi sagðist hins vegar ekki telja að það dygði til að taka RÚV af auglýsingamarkaði. „Er ekki miklum mun mikilvægara að skapa hérna rekstrarskilyrði til að fjölmiðlar þrífist almennt? Við erum hérna með lítil fyrirtæki, sem skapa efni fyrir markað sem telur 0,3 milljónir, og þau þurfa að keppa við risa á borð við Facebook og Google sem greiða hér engin gjöld,“ sagði hann.

„Það er ólíðandi, algjörlega ólíðandi, að einkareknir miðlar þurfi að keppa við RÚV um auglýsingatekjur,“ sagði Brynjar en bætti við að ekki væri stigið nógu stórt skref með því einu að RÚV færi af auglýsingamarkaði. „Það þarf að gera meira. Við verðum að endurskoða RÚV, hvernig það er fjármagnað, hvað það á að sýna og framleiða og hvers eðlis það á að vera.“

Hann sagði hins vegar að ekki væri auðvelt að ræða slíka hluti því ýmsir litu á það sem „árás á almannaútvarpið“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert