Styrkur vegna bragga nemur 41 milljón

Bragginn og skemman í Nauthólsvík.
Bragginn og skemman í Nauthólsvík. Mynd/Reykjavík

Kostnaður Reykjavíkurborgar vegna uppbyggingar á bragga í Nauthólsvík, sem er í eigu borgarinnar, og að leigja hann út næstu 10 árin til Háskólans í Reykjavík nemur núvirt 41 milljón. Horft er á slíkan kostnað sem styrk til skólans í tengslum við samvinnu borgarinnar og HR um eflingu þekkingarþorps í Vatnsmýri. Þetta kemur fram í minnispunktum sem kynntir voru borgarráði, en leigusamningurinn var undirritaður í september á síðasta ári.

Á næstunni verður ráðist í framkvæmdir við braggann sem stendur við Nauthólsveg 100. Það er Reykjavíkurborg sem stendur á bak við framkvæmdirnar. Endurbyggja á braggann, skemmu og náðhús og reisa tengibyggingu milli húsanna, en aðstaðan er hugsuð sem fé­lagsaðstaða og veit­inga­sala fyr­ir stúd­enta við HR. Þá er í minnispunktunum einnig tekið fram að skortur sé á húsnæði undir sprotafyrirtæki á svæðinu og húsnæðið gæti aukið tækifæri þeirra sem tengjast HR til að vinna að nýjum þróunarverkefnum meðan þeir eru við nám og störf.

Bragginn er 140 fermetrar, skemman 220 fermetrar og áætlað er að viðbyggingin verði 90 fermetrar. Samtals verður aðstaðan því 450 fermetrar.

Samkvæmt leigusamningi verður leigan 450 þúsund krónur á mánuði og er samningurinn verðtryggður. Samkvæmt núvirðisútreikningi borgarinnar og miðað við 152 milljóna framkvæmdakostnað, 3,65% ávöxtunarkröfu og hlutfallið sem færi í rekstur og viðhald, er áætlað að tap verði af verkefninu upp á 41 milljón yfir 10 ára tímabil. Kemur fram að til að núvirði verkefnisins yrði jákvætt þyrfti leigan að vera hækkuð upp í 621 þúsund krónur á mánuði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert