Lögregla rannsakar framhjálöndun

Frá Bolungarvík. Myndin er úr safni og tengist fréttinni ekki …
Frá Bolungarvík. Myndin er úr safni og tengist fréttinni ekki beint. Sigurður Bogi Sævarsson

Þann 23. ágúst óskaði starfsmaður Fiskistofu eftir aðstoð lögreglunnar vegna gruns um framhjálöndun í Bolungarvík. Í tilkynningu frá lögreglunni á Vestfjörðum segir að málið sé til rannsóknar og því sé ekki tímabært að gefa frekari upplýsingar um það.

Um klukkan hálf þrjú aðfaranótt 24. ágúst barst lögreglunni, í gegnum Neyðarlínuna, hjálparbeiðni frá þremur erlendum ferðamönnum sem voru þá nýlega komnir til hafnar á Suðureyri með erlendri skútu. Ferðamenn þessir höfðu deilt við skipstjóra skútunnar, sem þeir sögðu ölvaðan og æstan.

Skipstjórinn hafði haft í hótunum við þremenningana er þeir gengu frá borði. Ferðamönnum þessum þótti standa ógn af skipstjóranum, sem hefði minnt þá á að hann væri með skotvopn um borð. Í ljósi þessarar tilkynningar þótti óforsvaranlegt að lögreglan færi óvopnuð um borð í skútuna. Lögreglumenn fóru með viðeigandi öryggisbúnað og vopn til Suðureyrar og tryggðu ástandið meðan sérsveit var flutt með þyrlu LHG til Ísafjarðar og þaðan á vettvang. Kl. 6.38 voru sérsveitarmenn komnir um borð í skútuna og var skipstjórinn handtekinn. Þrjú vopn voru um borð í skútunni.

Skipstjórinn var fluttur á Ísafjörð og af honum látin renna áfengisvíman uns hægt var að yfirheyra hann. Aðrir áhafnarmeðlimir, alls fjórir talsins, voru yfirheyrðir þennan sama dag. Í lok þessa sama dags var málið talið upplýst. Skipstjórinn féllst á að gangast við lögreglustjórasátt vegna brots á reglum um tilkynningarskyldu skipa og eins vegna meðferðar á þeim vopnum sem fundust um borð. Skipstjórinn var látinn laus að þessu loknu og vopnin afhent tollgæslunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert