Styðja ekki beitingu neitunarvalds

Lilja Dögg Alfreðsdóttir utanríkisráðherra.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir utanríkisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslensk stjórnvöld hafa beitt sér fyrir, og munu gera áfram, umbótum á skipan og starfsháttum öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, m.a. er lýtur að neitunarvaldi fastaríkja. Þetta kemur fram í svari Lilju Daggar Alfreðsdóttur utanríkisráðherra við fyrirspurn Össurar Skarphéðinssonar.

Össur spurði hver afstaða ríkisstjórnarinnar væri til neitunarvalds fastaríkja í öryggisráði SÞ. Í svari Lilju Daggar kemur fram að neitunarvald fastaríkjanna var efalítið nauðsynleg forsenda fyrir tilurð öryggisráðsins á sínum tíma en er í dag svo komið að beiting eða hótun um beitingu neitunarvaldsins stendur öryggisráðinu fyrir þrifum. „Nægir þar að horfa til átakanna í Sýrlandi eða deilna Ísraels og Palestínu,“ segir í svarinu.

Íslensk stjórnvöld, fyrr og nú, hafa ítrekað gagnrýnt öryggisráðið fyrir að axla ekki skyldur sínar og ábyrgð og lýst eindregnum stuðningi við tilraunir til betrumbóta á skipan og starfsháttum öryggisráðsins sem hafa raunar staðið yfir um langt skeið,“ segir í svari Lilju þar sem enn fremur kemur fram að íslensk stjórnvöld hafi og ítrekað tekið undir málflutning um að fastaríkin skuli takmarka notkun sína á neitunarvaldinu.

„Ísland hefur m.a. skipað sér í sveit þeirra ríkja sem hafa almennt stutt við tillögur G4-ríkjanna (Brasilíu, Indlands, Japans og Þýskalands), sem snúa að fjölgun bæði fastra og kjörinna ríkja í öryggisráðinu. Ísland styður ekki neitunarvald til handa nýjum fastaríkjum í öryggisráðinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert