Uppruninn skiptir miklu máli

Í Reykjavík. Joe, Karen Borgford Botting, Charlie og Dwight Botting …
Í Reykjavík. Joe, Karen Borgford Botting, Charlie og Dwight Botting hafa upplifað margt á Íslandi og tóku meðal annars þátt í Reykjavíkurmaraþoninu. mbl.is/Golli

Samgöngur milli Íslands og Norður-Ameríku hafa aukist til muna undanfarin ár og samfara því hefur ferðum Vestur-Íslendinga til Íslands fjölgað töluvert. Karen Borgford Botting, fyrrverandi kennari frá Montreal, hefur verið á landinu undanfarna daga, en Íslandsáhugi hennar óx margfalt eftir að hún tók þátt í Snorraverkefninu á Íslandi 2007.

Snorraverkefnið hefur staðið yfir árlega síðan 1999. Um er að ræða samstarfsverkefni Norræna félagsins og Þjóðræknisfélags Íslendinga með það að markmiði að veita fólki af íslenskum ættum vestra tækifæri til þess að kynnast uppruna sínum.

Sterk tenging

Karen fæddist í Montreal en flutti fljótlega með foreldrum sínum, Skapta Josef Borgford og Hrefnu Asgeirson Borgford, til Winnipeg, þar sem hún ólst upp í „íslensku“ umhverfi í vesturbænum. „Íslenskur uppruni minn hefur alltaf verið mér kær og eftir að ég tók þátt í Snorraverkefninu tengdist ég vestur-íslenska samfélaginu í Winnipeg enn frekar og fannst ég þurfa að gefa því til baka það sem ég hafði upplifað,“ segir hún. Nefnir hún í því sambandi að hún hafi tekið þátt í félagsstarfinu af miklum krafti. Hún er meðal annars varaformaður í vestur-íslenska félaginu Frón í Winnipeg og fyrrverandi forseti félagsins Jón Sigurðsson-kvennadeild IODE (Imperial Order Daughters of the Empire), en þessi félög sjá meðal annars um að skipuleggja dagskrá 17. júní í Winnipeg ár hvert.

Guðrún Borgford, amma Karenar, var einn af stofnendum Jóns Sigurðssonar-kvennadeildar 1916 og segir Karen að sér hafi runnið blóðið til skyldunnar. „Starfið er mjög gefandi, en þetta er eina kvennadeildin af 45 sem eftir er innan IODE í Winnipeg. Þar held ég að íslensku tengslin skipti mjög miklu máli. Allt sem við gerum hefur íslenska tengingu.“

Íslendingadagshátíðin á Gimli fór fram í 127. sinn fyrstu helgina í líðandi mánuði og þar var Karen í hásæti sem fjallkona. „Það er mikill heiður að fá þessa útnefningu og ég tók auðmjúk við henni,“ segir hún, en Íslendingadagsnefnd á Gimli útnefnir fjallkonu árlega. „Það er erfitt að feta í fótspor allra þeirra merkilegu kvenna sem hafa gegnt embættinu en ég reyni að gera mitt besta.“ Hún segir ekki síður mikilvægt að hafa vegna starfsins fengið tækifæri til þess að hitta fólk sem hún hefði annars ekki hitt. „Þetta hefur veitt mér mikla gleði og víkkað sjóndeildarhringinn.“

Þjóðræknisþing var haldið í Reykjavík í fyrradag og sótti Karen það, en hún hefur verið á ferðalagi með eiginmanninum Dwight Botting og barnabörnunum Charlie og Joe hérlendis undanfarna daga. „Þetta hefur verið skemmtileg ferð og fræðandi,“ segir hún og bætir við að mikilvægt sé að halda börnunum áfram við efnið eins og gert hafi verið vestra síðan Íslendingar fluttu fyrst til Vesturheims. „Ég kom fyrst til Íslands 1990, síðan 2007 og svo núna. Við Dwight vildum kynna Ísland fyrir strákunum svo þeir skilji betur upprunann. Ættingjar og vinir hafa tekið sérlega vel á móti okkur og við förum héðan með góðar minningar.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert