Viðsnúningur í rekstri Íbúðalánasjóðs

Árshlutareikningur Íbúðalánasjóðs fyrir fyrri hluta ársins 2016 var staðfestur af stjórn sjóðsins í dag. Rekstrarniðurstaða ársins var jákvæð sem nemur 2.510 milljónum króna samanborið við 379 milljóna króna tap á sama tímabili árið á undan.

Viðsnúningurinn í rekstrinum nemur tæpum þremur milljörðum króna, að því er fram kemur í tilkynningu frá sjóðnum.

Þá er eiginfjárhlutfall hans nú 6,45%, samanborið við 5,46% í upphafi ársins, en hlutfallið er reiknað með sama hætti og eiginfjárhlutfall fjármálafyrirtækja og er það langtímamarkmið sjóðsins að hlutfallið sé yfir 5,0%.

Eigið fé Íbúðalánasjóðs í lok tímabilsins er 21.781 milljón króna en var 19.271 milljón króna í árslok 2015.

Stöðugildum fækkað

Í lok tímabilsins voru 98% heimila sem eru í viðskiptum við Íbúðalánasjóð með lán sín í skilum. Vanskil heimila eru í tilkynningunni sögð hafa minnkað verulega á milli tímabila. Um 2,5% heimila hafi þannig verið með þrjá eða fleiri gjalddaga í vanskilum þann 30. júní 2016 samanborið við 4,3% heimila á sama tíma árið 2015.

Greint er frá því að stöðugildum hafi fækkað um 20% frá fyrra ári og voru þau 76 þann 30. júní 2016 samanborið við 95 á sama tímabili árið 2015. Í áætlunum sjóðsins er gert ráð fyrir að fækkun stöðugilda skili sér að hluta á síðari helmingi ársins í lækkun rekstrarkostnaðar en verði komin að fullu til framkvæmda á árinu 2017.

Rekstrarkostnaður sem hlutfall af heildareignum sjóðsins nam þá 0,23% á ársgrundvelli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert