Menn byrjaðir að átta sig á umfanginu

Starfsáætlun þingsins liggur ekki enn fyrir.
Starfsáætlun þingsins liggur ekki enn fyrir. mbl.is/Eggert

Starfsáætlun þingsins liggur enn ekki fyrir að sögn Einars K. Guðfinnssonar, forseta Alþingis, sem kveðst vera þeirrar skoðunar að hún verði að liggja fyrir í næstu viku. „Menn eru byrjaðir að tala saman og átta sig á umfanginu sem við okkur blasir,“ segir hann.

Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra lagði í gær fram frumvarp um breytingu á lögum um þingsköp Alþingis fyrir 145. löggjafarþing, þar sem kemur fram að þingið sé framlengt til 29. október, en þann dag eru áformaðar alþingiskosningar.

„Þingstörfin hafa gengið vel og við vorum að afgreiða hér mál, gera að lögum og þoka þeim áfram í þinginu með atkvæðagreiðslum í gær,“ segir Einar. Á dagskrá mánudagsins verða síðan fyrirspurnir, sérstakar umræður og mál úr nefndum sem eru nú klár til afgreiðslu.

„Ég hafði vonast til þess að geta búið til starfsáætlun núna fyrir vikulokin en það er ljóst að það mun ekki takast.“

Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, telur starfsáætlun þingsins þurfa að …
Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, telur starfsáætlun þingsins þurfa að liggja fyrir í næstu viku. mbl.is/Ómar Óskarsson

Hann gerir ráð fyrir að starfsáætlun þingsins muni liggja fyrir í næstu viku og hann sé raunar þeirrar skoðunar að hún verði að gera það.

„En ég hef líka sagt að ég mun ekki leggja fram neina starfsáætlun nema þá sem ég tel að geti verið raunhæf og til þess að það sé hægt, þá þarf að liggja nokkurn veginn fyrir hvert verkefnið er og hvaða mál það eru sem er lögð áhersla á að afgreiða með einhverjum hætti.“ Sú vinna standi yfir núna og viðræður hafi m.a. farið fram milli þingflokksformanna um málið.

Þingrof má ekki boða fyrr en 45 dögum fyrir kosningar, sem er 15. september miðað við að haustkosningar fari fram 29 október. Engin skilyrði eru hins vegar fyrir því hve skömmu fyrir kosningar megi boða þingrof, sem er formleg tilkynning um kjördag og hindrar ekki áframhaldandi störf þings.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert