Sneri blaðinu við og bauð ferðamönnum í bæinn

Búð í stofunni. Öllu er haganlega komið fyrir í stofunni …
Búð í stofunni. Öllu er haganlega komið fyrir í stofunni sem er 20 fm. mbl.is/Árni Sæberg

Forvitnir ferðamenn víluðu ekki fyrir sér að kíkja á gluggann heima hjá Ernu Lilju Helgadóttur þrátt fyrir að hún lægi jafnvel í sófanum að horfa á sjónvarpið. Hún ákvað að snúa blaðinu við og opnaði í sumar verslun í stofunni heima hjá sér, en hún býr í einu elsta húsi á Seyðisfirði, sem hún keypti fyrir nokkrum árum.

Hún segir ákvörðunina að flytja úr Reykjavík í kyrrðina á Seyðisfirði með langveikan son sinn ekki hafa verið erfiða.

Fólk er mjög forvitið um húsið, sérstaklega ferðamenn. Síðustu sumur hefur fólk verið á glugganum að kíkja inn og skipti það litlu máli þótt maður væri sjálfur inni að horfa á sjónvarpið og slaka á. Ég ákvað því að snúa blaðinu við og bjóða því bara inn fyrst það var svona forvitið. Þannig varð þessi búð til í stuttu máli,“ segir Erna Lilja Helgadóttir, sem opnaði í sumar búð í einu elsta húsi á Seyðisfirði, sem er nánar tiltekið inni í stofu í húsinu sem hún býr í. Búðin er því smá í sniðum, í kringum 20 fm að stærð, og býður upp á úrval af íslenskri hönnun.

Rekstur búðarinnar hefur gengið glimrandi vel í sumar og ákvað Erna því að söðla um og flytja til Seyðisfjarðar í vetur og halda áfram að reka búðina. Erna er borinn og barnfæddur Reykvíkingur en eftir að fjölskylda hennar keypti hús sem amma hennar ólst upp í fyrir nokkrum árum á Seyðisfirði féll hún fyrir bænum. Stuttu síðar festu hún og fjölskylda hennar kaup á gömlu húsi við Bjólfsgötu sem nefnist Nóatún, þar sem hún býr og rekur verslunina, en þessi tvö hús standa hlið við hlið.

Sú ákvörðun að flytja með langveikan son sinn á Seyðisfjörð var ekki erfið að sögn Ernu þótt skrefið hafi vissulega verið stórt. „Þegar ég er hér líður mér eins og heima. Það er góð tilfinning. Okkur líður ótrúlega vel í þessum litla bæ. Hér býr yndislegt fólk og alltaf er eitthvað um að vera.“ Sonur hennar er byrjaður í grunnskólanum og líkar mjög vel og líst móður hans ekki síður vel á skólann. „Í heimilisfræði fóru krakkarnir til dæmis út á bryggju að veiða. Þetta er svo heimilislegt og notalegt,“ segir Erna.

Rólegt umhverfi á Seyðisfirði hentar mæðginunum mjög vel og ekki síst syni hennar. „Umhverfið hér er miklu þægilegra að því leyti að það er mjög afslappað andrúmsloft og minna stress, allt í göngufjarlægð“ segir hún og heldur áfram: „Mér finnst Reykjavík farin að minna örlítið á Manhattan á góðum degi. Erillinn er mikill, sem mér finnst stundum aðeins of mikið af því góða og virðist ekkert lát á.“

Búðin hennar Ernu sem ekki enn hefur fengið nafn er í raun aukavinna, en hún vinnur heiman frá sér í 100% vinnu fyrir Icelandair „Stofubúðin var í raun bara hugsuð fyrir sumarið og því hafði ég ekki miklar áhyggjur af því að finna nafn. En þar sem sú hugsjón hefur aldeilis breyst þarf ég að fara að nefna hana. Fasta vinnan gengur fyrir og hefur því opnunartími búðarinnar verið breytilegur, en á næstu dögum mun vetraropnunartíminn ráðast. Ég vinn fyrir frábært fyrirtæki. Það hefur sýnt okkur fullan skilning í kringum veikindin, sem er svo sannarlega ekki sjálfgefið, og er ég mjög þakklát. Ég get ekki verið langt í burtu frá syni mínum vegna veikindanna,“ segir hún.

Fasteignakaup í Bónus

„Þetta átti aldrei að gerast en hefur undið upp á sig,“ segir Erna og brosir þegar hún rifjar upp upphaf kynna sínum af Seyðisfirði. Fyrir fjórum árum voru foreldrar Ernu, þau Margrét og Helgi, að ferðast um landið. Þau komu við á Seyðisfirði og langaði móður Ernu að skoða húsið sem móðir hennar, Erna Ragnhild, ólst upp í á Seyðisfirði. „Þegar hún skoðar það hringir hún í móðursystur sína sem var þá um nírætt. Hún lýsir húsinu fyrir henni og í ljós kemur að þar er allt nánast upprunalegt frá því þær systur ólust þar upp. Litlu hafði verið breytt. Það var mjög skemmtilegt. Seinna um sumarið kíkir vinkona mömmu á húsið og henni býðst að kaupa það. Hún hringir í mömmu og spyr hvort þau ættu ekki kaupa húsið saman og gera það upp. Mamma var stödd í Bónus og var að kaupa grænmeti. Ferðin í grænmetisdeildina í Bónus breyttist í fasteignakaup á Seyðisfirði,“ segir hún og hlær. Fjölskyldurnar tvær hófust handa við að gera upp húsið sem amma Ernu, Erna Ragnhild, ólst upp í, en hún flutti síðar til Reykjavíkur. Segja má að þar með hafi tengingin slitnað við Seyðisfjörð um tíma, því amma Ernu kynntist eiginmanni sínum, sem var hermaður, og fluttist með honum til Bandaríkjanna, þar sem hún bjó lengst af. Móðir Ernu, Margrét, ólst að stórum hluta upp í Bandaríkjunum en Erna sjálf hefur alla tíð búið í Reykjavík.

Mikil þolinmæðisvinna fylgir því að gera upp gamalt hús, sem er tímafrekt að sögn Ernu. Eins og staðan er núna er beðið eftir iðnaðarmönnum til að taka næstu skref.

Aðeins íslensk hönnun kom til greina í búðina

„Mér finnst ekkert annað koma til greina en að bjóða upp á íslenska hönnun. Ég vil líka koma með eitthvað nýtt fyrir fólk sem býr á Austfjörðum því maður hoppar ekki í bíltúr til Reykjavíkur,“ segir Erna um vöruúrvalið, sem miðar hvort tveggja að ferðamönnum og íbúum á svæðinu.

Í búðinni eru m.a. til sölu íslenskar hönnunarvörur frá Kirsuberjatrénu við Vesturgötu í Reykjavík sem hafa selst vel. Fyrir jólin verður bætt við fleiri vörum og er búðin smám saman að taka á sig sterkari mynd. Meðal nýrra hönnuða Kristjana S. Williams, og bíður Erna spennt eftir fyrstu sendingunni nú seinna í mánuðinum.

Heimamenn hafa verið ánægðir með búðina og stutt Ernu með ráðum og dáð, en hún hafði enga reynslu af verslunarrekstri áður en hún opnaði búðina í sumar. „Fólkið í bænum er ótrúlega hvetjandi. Ég hef fengið góðar upplýsingar frá fólki sem ég þekki í verslunarrekstri sem hafa nýst mér vel.“ Á svæðinu eru nokkrar búðir sem bjóða einnig til sölu íslenskar hönnunarvörur. Í byrjun sumars stofnuðu þessar búðir verslunarfélag, en með því fyrirkomulagi stendur verslunarrekstur á svæðinu að sögn Ernu sterkar að vígi, enda styðji eigendur dyggilega við bakið á hvor öðrum. „Þetta hefur verið og er mjög lærdómsríkt og ég hef haft mjög gaman af þessu. Það er skrýtið hvernig hlutirnir verða, hvernig lífið leiðir mann áfram. Þetta er lítið ævintýri sem átti aldrei að gerast,“ segir Erna.

Íslenskar vörur eru í búðinni sem hefur ekki enn fengið …
Íslenskar vörur eru í búðinni sem hefur ekki enn fengið nafn. mbl.is/Árni Sæberg
Náttúrufegurð. Erna Lilja Helgadóttir við heimili sitt á Seyðisfirði.
Náttúrufegurð. Erna Lilja Helgadóttir við heimili sitt á Seyðisfirði. mbl.is/Árni Sæberg
Ingimundarhús á Oddagötu. Húsið sem amma Ernu, Erna Ragnhild, ólst …
Ingimundarhús á Oddagötu. Húsið sem amma Ernu, Erna Ragnhild, ólst upp í. mbl.is/Árni Sæberg
Hús Ernu til vinstri og á bakvið er Ingimundarhús.
Hús Ernu til vinstri og á bakvið er Ingimundarhús. mbl.is/Árni Sæberg
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert