Sóttu gangnamenn

mbl.is/Eggert

Björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar voru kallaðar út um hádegisbil í dag til aðstoðar gangnamönnum í Dýrafirði en þeir voru orðnir hraktir og kaldir í fjöllum ofan Núpsdals.

Slæmt veður var á þeim slóðum; vindhraði um og yfir 20 m/s, úrhellisrigning og hiti rétt yfir frostmarki. Treystu mennirnir sér ekki til byggða af sjálfsdáðun.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsbjörgu.

„Björgunarsveitarmenn komust að mönnunum laust fyrir klukkan hálf fimm og færðu þá í þurr og hlý föt og fylgdu þeim til niður Rjúpnahvilft að veginum yfir Gemlufallsheiði þangað sem þeir náðu nú á áttunda tímanum í kvöld. Þar biðu þeirra björgunarsveitarbílar sem fluttu þá til byggða.

Göngumaður í sjálfheldu í Fárskrúðsfirði

Þá voru björgunarsveitir á Austurlandi kallaðar út um miðjan dag til að aðstoða göngumann sem var kominn var í sjálfheldu, þreyttur og kaldur, í Tungudal inn af Fárskrúðsfirði. Vegna mikilla vatnavaxta hafði hækkað í á sem maðurinn treysti sér ekki yfir. Björgunarsveitamenn komu manni og línu yfir vatnsfallið. Göngumaðurinn var síðan færður í flotgalla og var hjálpað yfir ána og til byggða,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert