Gætti ekki að réttindum þremenninganna

Páll Egill Winkel, forstjóri Fangelsismálastofnunar ríkisins.
Páll Egill Winkel, forstjóri Fangelsismálastofnunar ríkisins. mbl.is

Fangelsismálastjóri braut lagareglur með ummælum í fjölmiðlum um fyrrverandi stjórnendur Kaupþing á meðan þeir afplánuðu á Kvíabryggju. Þetta er niðurstaða umboðsmanns Alþingis, sem segir fram­göngu og til­svör Páls Winkel fangelsimálastjóra ekki hafa verið í sam­ræmi við laga­regl­ur. 

Umboðsmaður hefur lokið máli þeirra Sigurðar Einarssonar, Ólafs Ólafssonar og Magnúsar Guðmundssonar, sem kvörtuðu yfir framgöngu Páls Winkel fangelsismálastjóra í fjölmiðlum.

Málið var látið niður falla en samkvæmt bréfum umboðsmanns til þeirra Páls Winkel og Ólafar Nordal innanríkisráðherra er það gert fyrst og fremst í ljósi yfirlýsingar forstjóra Fangelsismálastofnunar sem hann afhenti umboðsmanni í kjölfar málsins. Í yfirlýsingunni gengst fangelsismálastjóri við því að hafa gengið of langt og biðst velvirðingar á því og hefur fallist á réttmæti umkvartana þremenninganna.

Frétt mbl.is: Braut lagareglur með ummælum sínum 

Kvörtunin þremenninganna var í fjórum liðum. Í fyrsta lagi kvörtuðu þremenningarnir yfir ummælum Páls um að fangar hefðu viljað rauðvín með matnum á Kvíabryggju. Í öðru lagi fullyrtu þeir að kvikmyndagerðamaðurinn Michael Moore hefði fengið aðgang að fangelsinu til að ná af þeim myndum. Í þriðja lagi kvörtuðu þeir yfir ummælum Páls sem þeir túlkuðu sem dylgjur hans um mútur fanga. Í fjórða lagi kvörtuðu þeir yfir fréttum þess efnis að til hefði staðið að þeir færu á reiðnámskeið á Kvíabryggju og yfir ummælum Páls um þær fréttir.

Fang­els­is­mála­stjóri braut laga­regl­ur með um­mæl­um í fjöl­miðlum um fyrr­ver­andi stjórn­end­ur …
Fang­els­is­mála­stjóri braut laga­regl­ur með um­mæl­um í fjöl­miðlum um fyrr­ver­andi stjórn­end­ur Kaupþings á meðan þeir afplánuðu á Kvía­bryggju. Ljósmynd/Gunnar Kristjánsson

Greindi ekki rétt frá staðreyndum 

Eftir athugun umboðsmanns og fundum með Páli Winkel fangelsismálastjóra er niðurstaðan sú að Páli hafi verið ljóst að hann gætti ekki að réttindum þessara þriggja fanga á Kvíabryggju, meðal annars með því að fara ógætilega fram í fjölmiðlum. Þá hafi hann ekki greint rétt frá staðreyndum og ekki haft fyrir því að leiðrétta rangfærslur. Með því hafi hann kastað rýrð á tiltekna fanga.

Þá telur umboðsmaður framgöngu og tilsvör Páls ekki í samræmi við lagareglur. Þetta kemur fram í bréfi umboðsmanns til Ólafar Norðdal innanríkisráðherra, en þar segir: „Í þeim samtölum gerði ég forstjóranum grein fyrir þeirri afstöðu minni að í framgöngu hans og tilsvörum í fjölmiðlum, í þeim tilvikum sem kvörtunin beindist að, hefði verið um að ræða umtalsverð frávik frá því sem ég sem umboðsmaður Alþingis teldi samrýmast þeim lagareglum og sjónarmiðum sem honum sem forstöðumanni opinberrar stofnunar hefði borið að fylgja.“

Í bréfinu til Ólafar Nordal minnti umboðsmaður einnig á eftirlitsheimildir ráðuneytisins og skyldur þess til að bregðast við með viðeigandi hætti í tilvikum sem þessum.

Hvetur til umbóta í starfi fangelsanna 

Þá telur umboðsmaður að miklu skipti að hvetja til umbóta í starfi fangelsanna og fangelsisyfirvalda, þar sem fjölmörg atriði í samskiptum starfsmanna fangelsismálastofnunar og fanga séu í eðli sínu viðkvæm í ljósi þeirrar stöðu sem fangar eru í. 

Í niðurstöðu sinni til þremenninganna fór umboðsmaður einnig yfir það að stjórnvöld yrðu að gæta að ákvæðum laga um þagnarskyldu, persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. „Tryggja verður einkalífshagsmuni þeirra, sem í hlut eiga, svo og aðra réttmæta hagsmuni borgaranna til þess að samskipti þeirra við stjórnvöld verði ekki borin á torg að ástæðulausu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert