„Hjarta mitt er fullt af sorg“

Liridon segir synjun Útlendingastofnunnar koma illa við sig og honum …
Liridon segir synjun Útlendingastofnunnar koma illa við sig og honum finnist hann ekki lengur mennskur eftir að hafa fengið synjun aftur og aftur. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Ég veit ekki hvað ég á að segja, en einmitt núna er hjarta mitt fullt af sorg. Ég var að fá þær fréttir frá lögreglunni í gegnum Útlendingastofnun að ég og fjölskylda mín verðum að yfirgefa landið innan viku.“ Þetta skrifar Liridon Destani, 15 ára makedónískur unglingur sem kom með fjölskyldu sinni til Íslands. Liridon hefur sett af undirskriftasöfnun á síðunni Petitions24.com þar sem hann biðlar til almennings að hjálpa sér og fjölskyldu sinni.

 „Ég er gráti næst. Ég veit í alvörunni ekki hvað ég á að gera. Ég er bara 15 ára og ég er sá sem þarf að sjá um allt til að hjálpa fjölskyldu minni þar sem foreldrar mínir tala hvorki ensku né íslensku.  Mamma mín er alvarlega veik og ég hef miklar áhyggjur af mömmu minni, þar sem við höfum ekki efni á að kaupa lyf fyrir hana í Makedóníu,“ segir í hjálparbeiðni Liridons.

Liridon segir einnig að hann hafi talið að fjölskyldan væri loks komin á leiðarenda þegar þau komu til Íslands. „Ég elska þetta land og hérna eignaðist ég loks mína fyrstu nánu vini. Loksins gat ég séð fram á framtíð fyrir mig og fjölskyldu mína og loksins eygði ég von um að geta menntað mig og orðið gegn þjóðfélagsþegn.“

Synjun Útlendingastofnunnar komi illa við hann og segir Liridon að honum finnist hann ekki lengur mennskur eftir að hafa fengið synjun aftur og aftur og þurfa að ferðast úr einu landinu til annars.

„Mér finnst eins og draumar mínir um að öðlast menntun og að hjálpa fjölskyldu minni séu hægt og rólega að hverfa. Ég veit ekki hvað ég á að gera. Ég á enga orku eftir. Ég er bara 15 ára og þetta er of erfitt fyrir mig einan. Ég þarfnast hjálpar ykkar!“, segir í inngangsorðum undirskriftarbeiðninnar, sem tæplega 1.500 manns, m.a. einn kennara Liridons, hafa undirritað á undanförnum dögum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert