Segir verðbólgu ekki mælda með sama hætti

Vilhjálmur Birgisson krefur stjórnmálamenn svara á því af hverju húsnæðisliðurinn …
Vilhjálmur Birgisson krefur stjórnmálamenn svara á því af hverju húsnæðisliðurinn sé hafður með í verðbólgumælingum hér á landi. Ljósmynd/Steinar H

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, segir verðtryggðar skuldir íslenskra heimila hafa hækkað 100 milljörðum meira frá 1. janúar 2013 af því að verðbólga sé ekki mæld með sama hætti hér á landi og í öðrum Evrópuríkjum.

Í pistli sínum á Pressunni bendir Vilhjálmur á að verðbólga sé mæld án húsnæðisliðar í öllum öðrum löndum Evrópu og krefst svara frá íslenskum stjórnmálamönnum af hverju sá háttur sé ekki hafður á hér á landi líka.

Það sé „með ólíkindum að stjórnvöld, Samtök atvinnulífsins, Alþýðusamband Íslands og Seðlabankinn, sem tala um mikilvægi þess að ná hér stöðugleika, ná vöxtum niður og að hér þurfi að ríkja hóflegri verðbólga til langframa, skuli ekki sjá til þess að neysluvísitalan sé mæld með sambærilegum hætti og gert er í öllum löndum Evrópu, það er að segja án húsnæðisliðar,“ segir Vilhjálmur í pistli sínum.

„Bara við það eitt að mæla verðbólguna með sama hætti og gert er í öllum öðrum Evrópulöndum, sem sagt án húsnæðisliðar, mun hún lækka gríðarlega til langframa sem mun í kjölfarið leiða til lækkunar á vöxtum til almennings og fyrirtækja.“

Stýrivaxtaþróun fyrir hrun hefði orðið allt önnur væri verðbólga mæld með sama hætti og í öðrum Evrópuríkjum, sem hefði síðan m.a. áhrif á gengi krónunnar, viðskiptajöfnuð og vaxtamunaviðskipti.

„Ég vil líka fá svar frá stjórnmálamönnum við því hvernig í ósköpunum við getum verið að bera okkur saman við önnur lönd þegar við mælum neysluvísitöluna með allt öðrum hætti en aðrar þjóðir. Í ljósi þess að það er húsnæðisliðurinn sem hefur í gegnum árin knúið verðbólguna áfram!“ segir Vilhjálmur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert