Stormur að ganga niður á Vestfjarðamiðum

Slæmt veður hefur verið á Vestfjörðunum og á miðunum þar …
Slæmt veður hefur verið á Vestfjörðunum og á miðunum þar frá því í gær. Myndin er úr safni. mbl.is/Rax

Hvasst hefur verið á Vestfjörðum og á miðunum þar frá því í gær. Veður er nú orðið mun skaplegra á landi en Veðurstofan spáir því að stormur á miðunum gangi smám saman niður með deginum. Áfram verði þó nokkuð hvasst.

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar segir að fáir bátar hafi verið úti í morgun vegna vonskuveðurs sem hafi verið á miðunum frá því í gær.

Vindhraðinn náði um 20 m/s á fjallvegum á Vestfjörðum í gær, að sögn Þorsteins V. Jónssonar, veðurfræðings hjá Veðurstofunni. Heldur hafi hins vegar dregið úr vindi en öllu hvassara og verra veður hafi verið á fiskimiðunum fyrir utan Vestfirði.

Storminn ætti hins vegar að lægja í dag og mun hægara veður sé í kortunum á morgun.

„Það verður komið þokkalegasta veður á morgun, svona norðankaldi bara en rignir áfram á þessum slóðum,“ segir Þorsteinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert