Ræddu skosku leiðina á Alþingi

Brynhildur Pétursdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar.
Brynhildur Pétursdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra, segir að skoða eigi gaumgæfilega hugmyndir um svokallaða skoska leið sem snýst um að niðurgreiða flugfargjöld fyrir þá staði sem eru í ákveðinni fjarlægð frá þéttbýlisstöðum.

Þetta sagði hann í svari við fyrirspurn Brynhildar Pétursdóttur, þingmanns Bjartrar framtíðar, á Alþingi. Hún spurði út í skosku leiðina, sem miðast við að niðurgreiða innanlandsflug til þeirra sem eru með lögheimili á staðnum. Hún nefndi Austfirði í þessu samhengi, en taldi að þessi leið gæti einnig átt við Vestfirði og Norðurland.

„Við höfum á þessu kjörtímabili verið að skoða svona þætti í samgönguáætluninni. Þar er meðal annars verið að setja fjármuni til að skoða niðurgreiðslu á flugi innanlands,“ sagði Sigurður Ingi og nefndi að til dæmis hefði niðurgreiðsla flugfars fyrir íbúa Grímseyjar verið skoðuð.

Hann bætti þó við að hér á landi hafi umræðan um þetta snúist um að þetta sé ekki hægt vegna samkeppnisreglna EES.

Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins.
Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Eggert

Brynhildur kvaðst vona að farið verði í þetta mál á næsta kjörtímabili og þar geti Skotland verið fyrirmynd Íslands.

„Er þetta ekki bara þessi virði?,“ spurði hún. „Við erum að tala um flutningsjöfnunarsjóð, ekki fyrir olíu heldur fyrir fólk. Ég vona að það verði farið í þetta af einhverri alvöru.“

Sigurður Ingi sagðist vera sammála Brynhildi um að mjög áhugaverð búsetutækifæri séu fyrir fólk úti á landi. „Ég er sammála því að það eigi að skoða þetta gaumgæfilega með flugið,“ sagði hann og bætti við að niðurgreiðsla flugvélabensíns myndi einnig lækka flugfargjöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert