Vilja vera áfram undir kjararáði

mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Lögreglustjórafélagið telur rétt að lögreglustjórar heyri áfram undir kjararáð ólíkt því sem gert er ráð fyrir í lagafrumvarpi Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra um breytingar á starfsemi þess. Þetta kemur fram í umsögn félagsins um frumvarpið.

Varhugavert er að mati Lögreglustjórafélagsins í réttarríki að laun lögreglustjóra og ríkislögreglustjóra verði ákveðin af ráðherra eða sérstakri starfseiningu í ráðuneyti. Slík breyting sé til þess fallin að veikja ákæruvaldið og draga í efa óhlutdrægni rannsókna.

Bendir Lögreglustjórafélagið á í þessu sambandi að lögreglustjórar séu ákærendur í miklum meirihluta sakamála sem rekin séu fyrir íslenskum dómstólum. Gert sé ráð fyrir að saksóknarar og dómarar heyri áfram undir kjararáð en ekki logreglustjórar. Telur félagið að ekki eigi að skilja á milli ákærenda með þeim hætti sem gert sé í frumvarpinu.

„Lögreglustjórar njóti ákveðinnar sérstöðu þar sem að æðra sett stjómvald ber að virða sjálfstæði og hlutlægni lögreglu við rannsókn sakamála og meðferð ákæruvalds,“ segir ennfremur. Sú skylda hvíli á stjórnvöldum að tryggja að ákærendur geti sinnt störfum sínum án óréttmætra afskipta.

„Þá getur það haft áhrif á það hvemig ákærendur sinna störfum sínum ef laun þeirra verða ákveðin af ráðherra eða sérstakri starfseiningu í ráðuneyti.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert