Fái tækifæri til að klára málin

Rætt var um framhald þingstarfa í umræðum um störf þingsins …
Rætt var um framhald þingstarfa í umræðum um störf þingsins í dag. mbl.is/Ómar

Stjórnarþingmenn lögðu áherslu á að þingið fengi tækifæri til að leiða til lykta mikilvæg mál sem unnið hefur verið að undanfarið við upphaf þingfundar í dag. Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður VG, hafði bent á að síðasti dagur starfsáætlunar sé á morgun en ekkert liggi fyrir um framhaldið.

Samkvæmt starfsáætlun Alþingis átti síðasti starfsdagur þess að vera á morgun. Steinunn Þóra benti hins vegar á að stór mál eins og frumvarp um lífeyrismál opinberra starfsmanna væru enn á frumstigum umræðu í þinginu. Augljóst væri að ómögulegt væri að ljúka svo stóru máli á einum degi. Stjórnarandstaðan hafi kallað eftir skilaboðum um á hvaða mál ríkisstjórnin hygðist leggja áherslu en engin svör hafi borist. Staðan væri mjög bagaleg.

Willum Þór Þórsson, þingmaður Framsóknarflokkurinn, lofaði samstarf þingmanna. Ábyrgðarmál væri að klára mikilvæg mál sem unnið hafi verið að í ljósi þeirrar miklu vinnu sem þingmenn allra flokka hafi lagt af mörkum í nefndum þingsins.

Samflokkskona hans, Líneik Anna Sævarsdóttir, tók undir sjónarmið Willums Þórs. Nefndarvinnu væri lokið eða væri að ljúka í nokkrum stórum málum. Þar á meðal nefndi hún frumvörp um námslán og námsstyrk, losun hafta og aðstoð við kaup á fyrstu íbúð sem mikilvægt væri að skiluðu sér í gegnum þingið.

„Því tel ég mjög mikilvægt að við fáum tækifæri til að vinna hér áfram í einhverja daga fyrir kosningar,“ sagði Líneik Anna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert