Mun hafa áhrif á ásýnd fjarðanna

Líklegt er að sú mikla aukning sem er áformuð á …
Líklegt er að sú mikla aukning sem er áformuð á framleiðslu í fjörðunum feli í sér meiri hættu á að lax sleppi úr eldiskvíunum og að áhrifa eldisins geti orðið vart utan Patreksfjarðarflóa að sögn Skipulagsstofnunar. mbl.is/Kristinn

Skipulagsstofnun hefur lokið álitsgerð vegna aukinnar framleiðslu á laxi í Patreksfirði og Tálknafirði um 14.500 tonn. Stofnunin telur að fiskeldið muni ekki hafa veruleg neikvæð áhrif á siglingaleiðir eða aðra starfsemi í Patreksfirði og Tálknafirði, en  til fiskeldisins  þarf  rými  sem  nýtist  ekki  til  annars  á meðan starfsemin er í gangi. Stofnunin telur að framkvæmdin muni hafa áhrif á ásýnd fjarðanna.

Þetta kemur fram í áliti Skipulagsstofnunar

Stofnunin hefur farið yfir matsskýrslu Fjarðalax og Arctic Sea Farm og telur að hún matsskýrslan uppfylli skilyrði laga og reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum.

Í álitinu segir, að fyrirhugaðar framkvæmdir séu hluti af umfangsmiklu áformuðu og starfræktu fiskeldi í eldiskvíum á  Vestfjörðum, allt frá Patreksfirði til Ísafjarðardjúps.  

Skipulagsstofnun telur að þessar framkvæmdir séu líklegar til að geta haft samlegðaráhrif   hvað varðar landslag og ásýnd, ferðamennsku  og  útivist og mögulega aðra nýtingu, sem  mikilvægt er að verði greind. Slíkt  mat liggi hins vegar utan umfangs þess verkefnis sem hér sé til umfjöllunar, en eðlilegur vettvangur þess væri í strandsvæðaskipulagi fyrir Vestfirði.

Aukin hætta á að sjúkdómar og laxalús berist í villta stofna

„Helstu neikvæðu áhrif fyrirhugaðs fiskeldis Fjarðalax og Arctic Sea Farm í Patreksfirði og Tálknafirði munu að mati Skipulagsstofnunar felast í áhrifum á fisksjúkdóma, laxalús, náttúrulega stofna laxfiska og botndýralíf. Þannig felast helstu neikvæðu áhrif framkvæmdanna m.a. í aukinni hættu á að sjúkdómar og laxalús berist frá eldinu í villta  laxfiskastofna,  einkum sjóbirting, sem dvelur í sjó í Patreksfirði og Tálknafirði hluta úr ári. Þótt far strokulaxa úr eldi fyrir nokkrum árum virðist hafa takmarkast við  Patreksfjörð, er líklegt að sú mikla aukning sem er áformuð á framleiðslu í fjörðunum feli í sér meiri hættu á að lax sleppi úr eldiskvíunum og að áhrifa eldisins geti orðið vart utan Patreksfjarðarflóa, með tilheyrandi hættu á að eldislax blandist villtum laxastofnum,“ segir í álitinu. 

Þá segir, að stofnunin telji mikilvægt að tryggt verði að eldisbúnaður sé í samræmi við kröfur viðurkenndra staðla til að draga eins og kostur sé úr þessari hættu. Einnig sé mikilvægt að vöktun á lífríki hafsbotns á eldissvæðunum verði í samræmi við viðurkennda staðla og mat  á burðarþoli verði uppfært í samræmi við vöktun á ástandi sjávar.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert