Von á norðurljósum upp úr níu, tíu

Norðurljósin eru alltaf jafnfalleg þegar þau sjást á himni.
Norðurljósin eru alltaf jafnfalleg þegar þau sjást á himni. Ljósmynd/Jónas Erlendsson

Norðurljósasýning kvöldsins gæti hafist upp úr níu, tíu í kvöld að sögn veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands. Þorsteinn V. Jónsson veðurfræðingur segir útlitið þokkalegt Sunnanlands. Spáð sé einhverri háskýjabreiðu en hann eigi von á því að hún verði þunn þannig að sjá megi í gegnum hana.

Fólk er hvatt til að skoða norðurljósin með aðgát. Lögreglan á Suðurlandi brýndi t.a.m. fyrir fólki á Facebook-síðu sinni fyrr í dag að fólk stöðvaði ekki bifreiðar sína út í vegakanti. Þá tók leiðsögumaður í ferðaþjónustu sig til og útbjó kort þar sem finna má bestu norðurljósastaðina.

Frétt mbl.is: Kortlagði bestu norðurljósastaðina

„Yfirleitt eru það lágský og miðský sem skyggja mest en í kvöld er spáð háskýjabreiðu sem vonandi verður þunn,“ segir Þorsteinn. „Það eru lægri ský að koma inn með norðurströndinni og norðausturströndinni og það verður ekkert rosa skyggni þar.“

Hann segir þó alltaf líkur á einhverjum glufum og hvetur íbúa Norðurlands því til þess að drífa sig út og reyna að sjá eitthvað. „Þetta gæti verið betra, eins og í gær eða fyrradag en núna er bara norðanátt og þá koma skýin svolítið yfir landið,“ segir hann.

Þorsteinn segir fyrirséð að norðurljósin verði sterkari í kvöld en undanfarna daga. Hann segir að framan af kvöldi sé spáin fín Sunnanlands en eftir því sem líður á nóttina gæti skyggni versnað. „Það fer eftir því hvað þessi ský eru fljót að leggjast yfir hérna í kvöld.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert