Fjölgar sem vilja koma aftur til Íslands

24,6% þeirra erlendu ferðamanna sem komu til Íslands vegna náttúrunnar, …
24,6% þeirra erlendu ferðamanna sem komu til Íslands vegna náttúrunnar, nefndu norðurljósin sem áhrifavald. mbl.is/Sigurður Ægisson

Íslandsheimsóknin stóðst væntingar 95,9% þeirra erlendu ferðamanna sem heimsóttu landið frá því í október 2015 til maí 2016 og  tóku þátt í könnun Maskínu fyrir Ferðamálastofu. Þetta er meðal þeirra niðurstöðva sem finna má í nýrri könnun um viðhorf erlendra ferðamanna til Íslandsheimsóknar sinnar. Könnunin var unnin í framhaldi af sambærilegri könnun sem gerð var tveimur árum áður fyrir sama tímabil.

Líkt og áður sagði þá eru gestir landsins einkar sáttir við heimsóknina og stóðst Íslandsferðin væntingar 95,9% svarenda sem er álíka hlutfall og í síðustu vetrarkönnun, en þá var hlutfallið 95,4%. Tæp 90% töldu líklegt að þau myndu ferðast aftur til Íslands og er það nokkuð hærra hlutfall en fyrir tveimur árum (83,3%).

91,4% svarenda voru á landinu í fríi og var dvalarlengdin að jafnaði um 6,9 nætur, samanborið við 6,1 nótt í síðustu vetrarkönnun.

Flestir þátttenda nefndu  náttúruna sem ástæðu þess að Ísland hefði orðið fyrir valinu líkt og í fyrri könnunum, þá sú tala sé raunar  nokkuð lægri en síðast. 57,3% sögðu Ísland vera  áfangastað sem þá hafi alltaf langað til að heimsækja, 36,9% nefndu gott tilboð/lágt flugfargjald  og loks nefndu 33,7% íslenska menningu og sögu, sem eru mun færri en í síðustu könnun.

Þeir sem nefndu náttúruna sem áhrifavald varðandi Íslandsferð voru spurðir um hvað það væri varðandi náttúruna sem heillaði.

50,7% nefndu fegurð, óspillta eða ósnerta náttúru, landslag eða óbyggðirnar á móti 34,4% í könnuninni á undan. 24,6% nefndu norðurljósin sem 25,7% nefndu síðast. Þá nefndu 20,7% eldfjöll og hraun á móti 22,65 síðast. 17,1 nefndu jöklana nú, en 15,1% síðast og loks nefndu 16,6% sérstöðu og fjölbreytni íslensku náttúrunnar og hve frábrugðin hún væri því sem þeir ættu að venjast. Sú tala hefur lækkan töluvert frá síðustu könnun þegar 27,7% nefndu sérstöðu íslensku náttúrunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert