„Heppnar að ná að forða sér“

Kraninn liggur yfir Bæjarins bestu og timburstaflinn féll á ruslagám …
Kraninn liggur yfir Bæjarins bestu og timburstaflinn féll á ruslagám bak við vagninn og lokaði útgönguleið úr honum. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Tónlistarmaðurinn Skúli Þórðarson var að afgreiða í pylsuvagninum Bæjarins bestu þegar byggingarkrani féll yfir pylsuvagninn nú rétt fyrir hádegi. Skúli, sem er þekktur sem Skúli Mennski, viðurkenndi í samtali við mbl.is að hann væri óneitanlega í smá sjokki, en hann þurfti að skríða út um afgreiðslulúgu pylsuvagnsins eftir að timburstafli sem var í krananum lokaði dyrum vagnsins.

 „Ég áttaði mig í rauninni ekki á hvað var að gerast fyrr en eftir á og þá var það náttúrulega mjög sjokkerandi,“ segir Skúli.  Hann var í  miðri afgreiðslu þegar kraninn féll og segir að sem betur fer hafi hádegisösin ekki verið byrjuð. „Það var frekar fámennt þarna. Það var einn að versla, annar beið og svo sátu tvær stúlkur á bekknum fyrir utan vagninn.“

Frétt mbl.is: Krani féll á nýbyggingu í Hafnarstræti

Timburstafli sem var í krananum féll á undan krananum sjálfum og lenti hann að sögn Skúla ofan á  ruslagámi sem er fyrir aftan pylsuvagninn. Byggingakraninn fylgdi síðan í kjölfarið. „Þetta var svolítið lengi að gerast eftir að timburstaflinn féll. Ætli það hafi ekki verið einhver fyrirstaða þarna uppi, eins og byggingastillansar sem kraninn dettur á áður enn hann beyglaðist svo niður.“

Skúli segir manninn sem beið afgreiðslu hafa orðið þess var að kraninn var að falla og varaði þá við. „Ég vissi hins vegar ekkert hvað hann var að tala um fyrr en timburstaflinn féll,“ segir hann. Staflinn lokaði síðan dyrum vagnsins og þurfti Skúli því að skríða út um lúguna.  

Byggingakraninn sjálfur liggur nú að hluta til ofan við pylsuvagninn, sem virðist engu að síður hafa sloppið við skemmdir að mestu. „Einhver hluti kranans lenti hins vegar ofan á bekknum við hliðina á vagninum þar sem stelpurnar höfðu setið, þannig að þær voru mjög heppnar að ná að forða sér.“

Litlu mátti muna að manntjón yrði því kraninn missti stóran …
Litlu mátti muna að manntjón yrði því kraninn missti stóran bunka af timburfjölum sem féllu á stéttina um hálfan metra frá Bæjarins bestu, rétt áður en hann féll. mbl.is/Ófeigur Lýðsson
Skúli Mennski við pylsuvagninn á betri degi. Hann segir heppilegt …
Skúli Mennski við pylsuvagninn á betri degi. Hann segir heppilegt að hádegisösin hafi ekki verið byrjuð þegar kraninn féll. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert