Fundu mannabein skammt frá sverðinu

Eitt beinið sem veiðimennirnir fundu í landi Ytri-Ása í dag.
Eitt beinið sem veiðimennirnir fundu í landi Ytri-Ása í dag. Facebook-síða Sævars Guðjónssonar.

Gæsaveiðimenn gengu fram á mannabein í landi Ytri-Ása í Skaftártungu í dag. Beinin fundust 20-30 metrum frá þeim stað þar sem gæsaveiðimenn fundu sverð frá tíundu öld í síðasta mánuði.

Frétt mbl.is: Fundu sverð frá tíundu öld

Sævar Guðjónsson, einn veiðimannanna, segir að um lærlegg, mjaðmagrindarbein og rifbein sé að ræða. Eins fundu þeir af hluta sylgju en bóndinn á Ytri-Ásum, Halldór Magnússon, fann hinn hlutann um daginn.

Lærleggur sem fannst í landi Ytri-Ása.
Lærleggur sem fannst í landi Ytri-Ása. Facebook-síða Sævar Guðjónssonar

 Að sögn Sævars mun Minjastofnun ætla að rannsaka beinin frekar en allt bendi til þess að þarna sé um að ræða heygðan víking. Starfsmaður Minjastofnunar sé væntanlegur austur í fyrramálið að skoða þetta frekar en leitað hafi verið þarna í kring eftir að sverðið fannst. Þá fannst ekkert en sennilega hafi vatn skolað jarðveginum til og því hafi beinin blasað við þeim í dag. 

Frétt mbl.is: Beið eftir því að vera tekið upp

Sævar segir að þeir félagar hafi veitt á þessum slóðum á hverju ári og grínast með það að þeir þyrftu að fara að finna eiganda sverðsins eftir að fréttir bárust af sverðfundinum. „En svo gerðist það bara,“ segir Sævar þegar mbl.is náði í hann í kvöld.

Kristín Huld Sigurðardóttir, forstöðumaður Minjastofnunar, staðfesti í samtali við fréttastofu Rúv. í kvöld að beinin sem gæsaskytturnar fundu séu greinilega mannabein, lærleggur og mjaðmagrind.

Frétt RÚV 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert