Víkingaskipið Vésteinn sem gert er út af ferðaþjónustufyrirtækinu Reykjavík Viking Adventure og sigldi í áætlunarferðir frá Reykjavíkurhöfn í sumar er sokkið í höfninni á Granda.
Slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu barst útkallsbeiðni á sjöunda tímanum í kvöld en að sögn varðstjóra gat slökkviliðið ekkert aðhafst þegar á höfnina var komið nema að tína upp lausamuni þar sem það var þá þegar sokkið. Skipið er 8 til 10 metra langt.
Frétt mbl.is: „Víkingaskip sem þolir ýmislegt“
Vefsíða víkingaskipsins Vésteins
Maður í flotgalla fór í sjóinn og tíndi upp lausamuni á borð við skjöld og sverð.
Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliði verður ekkert aðhafst í bili enda ekki hægt að dæla upp úr skipinu í þessu veðri. Hefur slökkvilið því lokið störfum og afhent starfsmönnum hafnarinnar vettvanginn.
Að sögn Gísla Hallsonar yfirhafnsögumanns marrar skipið í kafi og hangir í bryggjunni. Hann segir að það verði híft upp annaðhvort í kvöld eða á morgun.
„Það er kafari á leiðinni. Við ætlum að skoða þetta,“ segir Gísli og bætir við að frekar hvasst sé við höfnina en býst við að það dragi úr vindi um tíuleytið í kvöld.
Frétt mbl.is: Víkingaskipið híft upp úr höfninni